Innherji

Boozt selt Íslendingum fyrir tæpan milljarð síðan í júlí

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Kröftug innreið Boozt á íslenskan markað hefur vakið mikla athygli.
Kröftug innreið Boozt á íslenskan markað hefur vakið mikla athygli.

Netrisinn Boozt hefur selt Íslendingum fyrir um 900 milljónir íslenskra króna síðan í júlí á þessu ári.

Þetta kom fram í máli Peters G Jörgensen, framkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs og eins stofnanda netverslunarinnar, á lokuðum viðburði sem ÍMARK stóð fyrir í vikunni og fjallaði um gagnadrifna markaðssetningu.

Boozt.com er stærsta netverslun á Norðurlöndum og selur meðal annars snyrtivörur, heimilisbúnað, íþróttaklæðnað og tískufatnað, svo nokkuð sé nefnt. Hermann Haraldsson, forstjóri netverslunarinnar, tók þátt í stofnun fyrirtækisins fyrir ellefu árum. Fyrirtækið skilaði fyrst hagnaði árið 2016 en nú er markaðsvirði þess tólf milljarðar sænskra króna, jafnvirði 174 milljarða íslenskra króna. Félagið er skráð á markað í Svíþjóð og í Danmörku.

Í erindi Jörgensens kom einnig fram að Íslendingar hafi nú þegar keypt 40 þúsund sinnum á síðunni. Það gerir meðaltal hverrar sölu um 22.500 krónur.

41 prósent þeirra sem versluðu á Boozt, gerðu aðra pöntun innan 30 daga frá þeirri síðustu.

Boozt var tvo mánuði að velta ASOS úr sessi

Markaðsvakt Meniga greindi innkomu netrisans á íslenskan markað á dögunum. Þar var meðal annars borin saman markaðshlutdeild valinna netverslana.

Þróun markaðshlutdeildar sex fataverslana á netinu síðustu 12 mánuðiMeniga

Þannig tók það Boozt aðeins tvo mánuði að ná yfir 50 prósent markaðshlutdeild í þessum samanburði og velta meðal annars úr sessi netrisanum Asos, sem hafði notið mikilla yfirburða hér á landi fram að því.

Línuritið sýnir mánaðarlega þróun heildarsölu fyrir tímabilið og samanburð við fyrra tímabil. Súluritið sýnir hlutfallslega breytingu milli tímabilanna.Meniga

Á seinni myndinni má sjá samantekt Meniga á því hvernig almenn netverslun hafði aukist vegna heimsfaraldursins á milli ára á fyrsta ársfjórðungi, en þá hafði Boozt ekki opnað fyrir íslenskan markað. 

Vöxturinn er á bilinu 20–32 prósent á milli mánaða á hvoru ári. Greining Meniga metur að munurinn hafi ekki verið jafn áþreifanlegur í apríl og maí þar sem netverslun hafði þegar tekið góðan kipp í sömu mánuðum árið 2020, þegar Covid-19 skall á. 

Áhrif innkomu Boozt á þennan markað frá og með júní eru ótvíræð, líkt og sést á myndinni. Heildarvelta hjá þessum fyrirtækjum er nálægt því að tvöfaldast frá fyrra ári í september. Samkvæmt Meniga er vöxturinn enn áhrifameiri þar sem velta hinna fyrirtækjanna hafði þegar aukist um meira en 50 prósent frá janúar til september 2020.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.