Innherji

Hagræðingaraðgerðir Regins báru ávöxt

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Verslun hefur gengið afburðavel í faraldrinum að sögn greinandans. Reginn er eigandi Smáralindar.
Verslun hefur gengið afburðavel í faraldrinum að sögn greinandans. Reginn er eigandi Smáralindar. VÍSIR/VILHELM

Hagræðingaraðgerðir innan Regins hafa borið árangur, að því er kemur fram í verðmati Jakobsson Capital á fasteignafélaginu. Rekstrarhagnaðarhlutfall Regins hækkaði úr 69,5 prósentum upp í 73,3 prósent milli ára en þetta er besta rekstrarhagnaðarhlutfall Regins síðan Jakobsson Capital hóf að gera verðmöt á félaginu árið 2016.

Í fyrri verðmötum hafði komið fram að rekstrarkostnaður Regins hefði vaxið umfram verðbólgu. „Virðist nú að sú þróun hafi snúist við og er það afar hughreystandi þar sem sívaxandi kostnaður getur orðið stór flækja til að vinda ofan af.“

Leiguarðsemi Regins hækkar um 0,4 prósent milli ára og er nú 4,8 prósent. Sé miðað við þriðja ársfjórðung 2019 er leiguarðsemi örlítið lægri en þá er hún var 5,0 prósent.

„Hins vegar er þetta hraustur viðsnúningur síðan í fyrra og bendir til þess að leiga sé að hækka og kostnaður að lækka miðað við bókfært virði eigna,“ segir í verðmatinu.

„Reginn hefur verið að selja eignir sem voru ekki í fullri útleigu og í staðinn verið að kaupa eignir sem eiga að skila hærri tekjum. Vafalaust má rekja hækkun leiguarðseminnar til þessa og kostnaðarhagræðis.“

Hertar sóttvarnaraðgerðir hafa tekið gildi á ný en höfundur verðmatsins telur ekki miklar líkur á að þær verði sérstaklega íþyngjandi fyrir Reginn.

Þróun hlutabréfaverðs Regins síðustu 6 mánuði. Það stendur nú í 32 krónum.

„Eignasafn Regins er vel dreift og vel hægt að segja að eggin séu ekki öll í sömu körfunni,“ segir greinandinn og bendir á að þriðjungur eigna Regins séu verslunareignir. Verslun hafi gengið afburðavel í faraldrinum en hótel, sem hafa orðið hvað verst úti, séu aftur á móti afar lítill hluti eigna Regins.

Verðmatsgengi Regins nú 31,1 krónur á hlut samanborið við markaðsgengi upp á 32 krónur á hlut. Munurinn á verðmatsgengi og markaðsgengi er því ekki nema tæp 3 prósent.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Fjárfestar veðji á mikinn söluhagnað hjá Skeljungi

Verðmatsgengi Skeljungs, samkvæmt greiningu Jakobsson Capital, hljóðar upp á 11 krónur á hlut en markaðsgengi smásölufélagsins er í dag 13,9 krónur, eða 26 prósentum hærra. Í verðmatinu er þó lögð áhersla á að verðmatsgengið segi aðeins hálfa söguna í ljósi þess að Skeljungur er í miklum breytingafasa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×