Innherji

Seðlabankastjóri: „SA sömdu klárlega af sér"

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Ásgeir Jónsson, Halldór Benjamín Þorbergsson og Ragnar Þór Ingólfsson.
Ásgeir Jónsson, Halldór Benjamín Þorbergsson og Ragnar Þór Ingólfsson.

„Ég er hissa að séu stórar yfirlýsingar um að himinn og jörð séu að farast þegar við erum fyrirsjáanlega að hækka vexti núna. Vextir eru í 2 prósentum. Þeir voru í 4,5 prósentum þegar Lífskjarasamningurinn var gerður. Mér finnst svona yfirlýsingar úr korti við alla skynsemi og úr takti við raunveruleikann,” sagði Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri á fundi Viðskiptaráðs Íslands sem fram fór í morgun og bar yfirskriftina Er vinnumarkaðurinn týndi hlekkurinn?

Ásgeir ávarpaði fundinn, auk Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs. Þá tók Konráð Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs á móti Magneu Þórey Vilhjálmsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Icelandair Hotels, Rannveigu Sigurðardóttur varaseðlabankastjóra peningastefnu og Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR.

Ásgeir færði í erindi sínu rök fyrir því að þessi hækkun vaxta nú, væri í raun hraustleikamerki. „Að einhverju leyti er það nefnilega jákvætt að hækka vexti. 0 prósent vextir eru dauðinn! Þeir eru tákn um stöðnun, dauða, atvinnuleysi og aumingjaskap,” sagði Ásgeir. Hann bætti við að hagvaxtarákvæði kjarasamninga kæmi mjög illa við verðstöðugleika, enda væri fyrst og fremst verið að endurheimta hagvöxt sem hefði tapast vegna farsóttarinnar. Hins vegar hafi verið um þetta samið og hann hafi skilning á því að verkalýðsfélögin sæki það sem samið var um.

 „Samtök atvinnulífsins mættu hins vegar hugsa hvernig þau semja. Þau sömdu klárlega af sér.”



Ásgeir hélt áfram. „En er þetta hagfræðileg skynsemi? Svarið er nei. Íslendingar hafa alltaf hækkað laun meira en aðrir. Þetta þarf að ræða, af hverju við teljum okkur þurfa að hækka laun um 6 prósent á ári eða meira? Við verðum að geta rætt þetta án þess að sé farið yfir í fúkyrði eða skammir.”

Ragnar Þór sagði þessa skörpu hækkun vaxta aftur á móti vonbrigði. „Það sem stakk mig mest og voru mín hörðu viðbrögð var þessi óboðlegi málflutningur að skella skuldinni á verkalýðsfélög. Að það sé ástæða þess að hér fari verðbólga úr böndunum. Allar tölur sýna að það er fasteignamarkaðurinn sem hefur keyrt þessa verðbólgu upp. Seðlabankinn hefði átt að grípa fyrr inn, með því að breyta verðsetningarhlutföllum, stytta lánstíma. En skaðinn var skeður. Það er ekki boðlegt að stíga síðan fram og kenna verkalýðsfélögunum um.”


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×