Umræðan

Fyrirsjáanlegur vandi

Anna Hrefna Ingimundardóttir skrifar

Á seinasta ári námu opinber útgjöld helmingi allrar framleiðslu í landinu. Svigrúm til skuldsetningar heimilaði slíka niðurstöðu. En óháð vilja stjórnmálamanna til að uppfylla allar kröfur og þarfir samfélagsins eru þeir bundnir af framleiðslugetu hagkerfisins til lengri tíma litið.

Hagspár móta fjárlagagerð þar sem áætla þarf tekjur og útgjöld sem velta að miklu leyti á aðstæðum í efnahagslífinu. Þó eru hvorki haglíkön né stjórnvöld þeim eiginleikum gædd að geta séð fyrir efnahagsleg áföll eða grundvöll nýrrar vaxtargetu í þjóðarbúinu.

Samhengi áætlana og fjárlaga voru skoðuð fyrir Evrópusambandsríki yfir tímabilið 1998-2019. Að meðaltali var hagvöxtur einu prósentustigi minni en áætlanir til þriggja ára gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir þessa vitneskju er skekkjan ekki innbyggð í fjárlagagerðina. Þvert á móti styðjast yfirvöld gjarnan við bjartsýnar sviðsmyndir til að fresta nauðsynlegum hagræðingaraðgerðum eða rökstyðja áframhaldandi útþenslu.

Hagvöxtur framtíðar er seldur sem töfralausn. Raungerist væntingarnar hins vegar ekki munu vandamálin aðeins frestast og magnast. Þegar áætlanir, sem oft byggja á bjartsýnum væntingum, hafa verið samþykktar er mikil tregða til að aðlaga þær að breyttum veruleika – sérstaklega þegar sá veruleiki er lakari en vonast var til. Þessi tregða leiðir til þekktrar bjögunar í átt að rekstrarhalla sem á það til að verða viðvarandi. Slíkt ástand leiðir til sívaxandi skuldsetningar sem getur þróast í skuldavanda.

Neikvæð afkoma til framtíðar?

Síðastliðið vor kom í fyrsta skipti út skýrsla yfirvalda um langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum til 30 ára. Skýrslan var tímabært framfaraskref. Til að stuðla að ábyrgri meðferð opinbers fjár þurfa þeir sem fara með fjárveitingarvaldið að vera meðvitaðir um það á hvaða braut hin gríðarstóru opinberu kerfi eru miðað við lýðfræðilega þróun og vaxtargetu hagkerfisins. Að öðrum kosti mun skammsýnin ráða för og vandamál ágerast.

Í skýrslunni kemur fram að afkoma hins opinbera verði neikvæð frá 2026 allt til loka hins 30 ára tímabils, með tilheyrandi skuldaaukningu. Ætla mætti að slík opinberun gæfi tilefni til umræðna á Alþingi svo hægt sé að móta raunhæfar viðbragðs- og aðgerðaáætlanir. Svo er ekki, ólíkt því sem tíðkast í öðrum löndum. Opinská umræða þarf að eiga sér stað um langtímaáskoranir og sjálfbærni opinberra fjármála svo hægt sé að taka afstöðu til þeirra og bregðast tímanlega við.

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið

Þegar langtímahorfur þjóðarbúsins eru metnar í samhengi við opinber fjármál blasir við að ekki dugir að treysta á aukinn hagvöxt framtíðar hér frekar en annars staðar. Hagræðing hjá hinu opinbera er forsenda þess að jafnvægi náist í ríkisfjármálunum.

Ísland er eitt fárra landa innan OECD þar sem ekki fer fram regluleg úttekt á opinberum útgjöldum. Að auki hefur staðið á innleiðingu gagnlegra árangursmælikvarða innan ráðuneyta eins og kveðið er á um í lögum um opinber fjármál. Það er sjálfsögð krafa skattgreiðenda að árangur opinberra útgjalda sé metinn með kerfisbundnum hætti, þar sem skýr markmið eru skilgreind og árangur er mældur.

Margt hefur áunnist í umgjörð opinberra fjármála á undanförnum árum en víða liggja enn tækifæri til umbóta. 

Sökum getuleysis okkar til að skyggnast inn í framtíðina munum við aldrei sjá efnahagsleg áföll fyrir en við getum horft lengra fram í tímann en til eins árs í senn og haft borð fyrir báru þegar kemur að áætlanagerð.

Án varfærinnar stefnu minnkar svigrúmið til að bregðast við áföllum.

Tilgreina þarf betur í fjármálastefnu hvernig varfærni birtist í afkomu frá ári til árs, til dæmis með útgjaldareglu þar sem sett yrði þak á útgjaldavöxt, til viðbótar við þær fjármálareglur sem þegar eru til staðar. Við getum einnig gert mun betur þegar kemur að því að draga stjórnendur til ábyrgðar fyrir slæma meðferð á opinberu fé. Til þess þurfum við aukið gagnsæi þegar kemur að markmiðum og árangri hvers ráðuneytis. Þetta væru tilvalin verkefni fyrir nýjan fjármálaráðherra.

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×