Innherji

Posabirgir stærstu færsluhirða landsins er í sigti bandarískra yfirvalda

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Þráðlausu posarnir frá PAX hafa notið vinsælda hér á landi. 
Þráðlausu posarnir frá PAX hafa notið vinsælda hér á landi.  PAX Global Technology

Alríkislögregla Bandaríkjanna gerði húsleit á skrifstofu kínverska kortaposaframleiðandans PAX Global Technhology í lok október en það er einn helsti birgir stærstu færsluhirðanna á Íslandi; SaltPay og Valitor.

„Það eru engar vísbendingar um að trúnaðarupplýsingar um korthafa eða viðskipti séu í hættu,“ segir Reynir Grétarsson, forstjóri SaltPay.

Í yfirlýsingu PAX Global, sem er skráð á hlutabréfamarkaðinn í Hong Kong og hefur selt hátt í 60 milljónir posa til 120 landa, kom fram að alríkislögreglumenn hefðu fengið heimild dómstóla til að leita að og leggja hald á vissan búnað á skrifstofu og í vöruhúsi fyrirtækisins í Flórídaríki. 

Í kjölfarið hrundi hlutabréfaverð posaframleiðandans um meira en 40 prósent.

Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna telur að posar frá PAX Global hafi sent dulkóðuð gögn til óþekktra aðila í Kína. Þetta kom fram í bréfi sem ráðuneytið sendi á bandarísk fjármálafyrirtæki og fréttaveitan Bloomberg greindi frá. 

Rannsóknir ráðuneytisins á posum frá PAX Global vörpuðu ljósi óvenjulegar gagnasendingar sem voru tíðari og stærri en hefðbundnar kortafærslur. PAX Global hefur hins vegar þvertekið fyrir að svo sé búið um hnútana.

„Það er ekki að sjá að þetta skipti neinu máli fyrir okkur á Íslandi. Í fyrsta lagi erum við hjá SaltPay ekki að nota hugbúnað frá PAX heldur einungis posana. Og í öðru lagi er PAX í Bandaríkjunum séreining þannig að ekki er víst að ásakanir þar í landi eigi við annars staðar,“ segir Reynir. 

Hann bætir við að posar á Íslandi geti mögulega sent frá sér upplýsingar um annað en færslurnar sem fara í gegnum þá, til dæmis staðsetningu posans, hvenær var kveikt á honum, o.s.frv.

„Það er hins vegar mjög langsótt, í ljósi þess að hugbúnaðurinn er frá þriðja aðila, og upplýsingarnar væru fremur ómerkilegar. Ég hef meiri áhyggjur af því hvað snjallsímarnir sem allir nota eru að senda frá sér.“

Reynir Grétarsson, forstjóri SaltPay.SaltPay

Spurður hvernig SaltPay taki á þessu máli segir Reynir að sérfræðingar fyrirtækisins sé vel á verði.

„Móðurfélagið okkar er þúsund manna fyrirtæki þannig að klárustu og bestu mennirnir í þessum bransa eru að fylgjast grannt með gangi mála,“ segir Reynir.

Þá var einnig greint frá því í lok október að færsluhirðirinn Worldpay, sem er undir hatti bandaríska fjármálarisans FIS, væri byrjaður að skipta út posum frá PAX Global. Færsluhirðirinn sagðist ekki hafa fengið fullnægjandi skýringar frá PAX á því hvers vegna posarnir tengdust vefsíðum sem hann kannaðist ekki við.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×