Viðskipti innlent

Hafa selt fyrir þrjá milljarða og sett 138 fyrir­tæki á úti­lokunar­lista

Atli Ísleifsson skrifar
Starfsemi fyrirtækjanna uppfyllir ekki skilyrði um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar samkvæmt nýrri heildarstefnu stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna um ábyrgar fjárfestingar.
Starfsemi fyrirtækjanna uppfyllir ekki skilyrði um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar samkvæmt nýrri heildarstefnu stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna um ábyrgar fjárfestingar. Vísir/Vilhelm

Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV) hefur sett alls 138 fyrirtæki á útilokunarlista. Þegar hafa verið seldar eignir að virði rúmlega þriggja milljarða króna úr eignasöfnum LV vegna útilokunarinnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá LV. Ástæðan er sögð vera að starfsemi fyrirtækjanna uppfylli ekki skilyrði um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar samkvæmt nýrri heildarstefnu stjórnar LV um ábyrgar fjárfestingar.

Á grundvelli nýrrar stefnu stefnu hefur lífeyrissjóðurinn þegar sett 138 fyrirtæki á útilokunarlista:

  • 88 fyrirtæki sem vinna kol, olíusand og olíuleir,
  • 13 fyrirtæki í tóbaksframleiðslu,
  • 22 fyrirtæki sem framleiða umdeild vopn og;
  • 15 fyrirtæki sem teljast brjóta gegn „UN Global Compact“.

Sjá má útilokunarlistann á heimasíðu lífeyrissjóðsins, en tekið er fram að við smíði stefnunnar um ábyrgar fjárfestingar hafi verið litið um fyrirmynda frá leiðandi lífeyrissjóðum á Norðurlöndum.

„Framangreind útilokun er hluti af víðtækri stefnumótun stjórnar sjóðsins varðandi ábyrgar fjárfestingar. Afraksturinn er meðal annars tvær nýjar stefnur sem styðja við ábyrga langtímaávöxtun eigna, sjálfbærni og aðgerðir í loftslagsmálum.

Í nýrri heildarstefnu LV um ábyrgar fjárfestingar er gerð grein fyrir útfærslu LV á aðferðarfræði ábyrgra fjárfestinga sem endurspeglar auknar áherslur sjóðsins í þessum málaflokki. Þar er meðal annars vikið að markmiðum stefnunnar, þýðingu sjálfbærni við eignastýringu, samþættingu aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga við hefðbundna eignastýringu og framkvæmd eigendahlutverks, upplýsingagjöf um framkvæmd stefnunnar og innleiðingu. Jafnfram er lögð áhersla á að þau fyrirtæki sem sjóðurinn fjárfestir í eigi ábyrg samskipti við haghafa sína og fylgi betur áherslum LV varðandi góða stjórnarhætti,“ segir í tilkynningunni.

Eignastefna LV varðar eignasöfn sem nema ríflega 1.100 milljörðum og eru grundvöllur réttinda rúmlega 175 þúsunda sjóðfélaga.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×