Viðskipti innlent

Fyrst til að selja net­öryggis­tryggingu á Ís­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Hjálmar Sigurþórsson, framkvæmdastjóri trygginga hjá TM.
Hjálmar Sigurþórsson, framkvæmdastjóri trygginga hjá TM. Aðsend

Tryggingafélagið TM hefur hafið sölu á netöryggistryggingum, fyrst tryggingafélaga hér á landi. Eru tryggingar hugsaðar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem vilji lágmarka fjárhagslegt tap, verði þau fyrir netárás.

Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að netglæpir verði sífellt algengari og að tryggingin standi saman af fimm bótasviðum – netárás, gagnaleka, ábyrgð vegna gagnaleka, rekstrarstöðvun og auðkennisþjófnaði. Veiti hún aðgang að þjónustuaðilum hér á landi sem séu sérfræðingar í netöryggi.

„Tryggingin bætir meðal annars kostnað við að endurreisa tölvukerfi og tölvugögn í kjölfar netárásar. Hún bætir þá rekstrarstöðvun sem verður í kjölfar netárásar og tekur jafnframt til kostnaðar ef gögn leka. Auk þess bætir hún kostnað sem kann að hljótast í kjölfar auðkennisþjófnaðar,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Hjálmari Sigurþórssyni, framkvæmdastjóra trygginga hjá TM, að forvörnum sé í mörgum tilfellum ábótavant.

„Stærri fyrirtæki hafa haft aðgang að slíkum tryggingum í gegnum erlenda tryggingamarkaði. Við höfum því ákveðið að bjóða upp á þessar tryggingar fyrir þau fyrirtæki sem hefur ekki staðið slíkt til boða. Staðan er líka þannig að það eru ekki aðeins stór fyrirtæki sem lenda í netárásum heldur eru þær sífellt að verða algengari hjá minni og meðalstórum fyrirtækjum. Aðferðarfræðin við þessa glæpi hefur breyst þannig að allir geta lent í árás. Ekki er lengur endilega skipulögð árás á tiltekin fyrirtæki, heldur hent út beitum á þúsundir netfanga og getur hvert okkar sem er lent í þeirri gildru og þar með hleypt tölvuþrjótum inn í kerfin,“ er haft eftir Hjálmari.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×