Körfubolti

Haukar áfram í riðlakeppni EuroCup

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir var stigahæst í liði Hauka í kvöld.
Helena Sverrisdóttir var stigahæst í liði Hauka í kvöld. VÍSIR/BÁRA

Haukakonur eru komnar í riðlakeppni EuroCup í körfubolta þrátt fyrir tveggja stiga tap gegn portúgalska liðinu Unaio Sportiva í kvöld, 81-79. Haukar unnu fyrri leikinn með fimm stigum á heimavelli og fara því áfram á samanlögðum árangri.

Heimakonur í Unaio Sportiva byrjuðu af miklum krafti og skoruðu fyrstu tíu stig leiksins. Áður en langt um leið var staðan orðin 19-2, og útlitið svart fyrir Haukakonur strax í fyrsta leikhluta, en að honum loknum var staðan 28-15.

Haukakonur náðu að þjappa sér saman fyrir annan leikhluta og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Þegar stutt var til hálfleiks var munurinn kominn niður í sex stig, en heimakonur skoruðu þrjú seinustu stig hálfleiksins og staðan var 48-39 þegar gengið var til búnigsherbergja.

Haukar héldu áfram að saxa á froskotið í seinni hálfleik, en í þriðja leikhluta skoruðu þær 18 stig gegn aðeins tíu stigum heimakvenna. Þegar komið var að lokaleikhlutanum var munurinn því aðeins eitt stig, 58-57.

Heimakonur þurftu því að eiga góðan fjórða leikhluta til að hrista Haukakonur af sér og ná að vinna upp það fimm stiga forskot sem Haukar höfðu unnið sér inn í fyrri leik liðanna. 

Þegar tæpar sjö mínútur voru til leiksloka kom Helena Sverrisdóttir Haukakonum í forystu í fyrsta skiptið í leiknum, og eftir voru því æsispennandi lokamínútur. Þegar um tvær mínútur voru eftir á klukkunni settu heimakonur tvo þrista í röð og náðu sjö stiga forskoti, 79-72.

Helens Sverrisdóttir skoraði þá næstu fimm stig leiksins og minnkaði muninn aftur í tvö stig. Heimakonur fóru illa að ráði sínu á lokamínútum leiksins og Haukakonur létu tímann renna út þegar staðan var 81-79.

Helena Sverrisdóttir var stigahæst í liði Hauka með 32 stig, en hún gaf einnig þrjár stoðsendingar og tók þrjú fráköst. Haiden Palmer, sem átti frábæran leik þegar liðin mættust á Íslandi fyrir viku, hafði hægt um sig í sóknarleiknum, en bætti upp fyrir það með því að taka 12 fráköst og gefa sex stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×