Innlent

82 prósent 2.655 ákærðra karlar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Getty

Af þeim 2.655 einstaklingum sem sættu ákæru í fyrra voru 2.168 karlar, eða 82 prósent. Alls komu 9.132 mál til meðferðar hjá ákæruvaldinu en um er að ræða 5,1 prósent fækkun frá fyrra ári, að því er fram kemur í ársskýrslu ríkissaksóknara.

Það er Morgunblaðið sem greinir frá.

Af 9.132 málum sem komu til kasta lögreglu og héraðssaksóknara voru gefnar út ákærur í 7.631 máli, sem jafngildir 84 prósentum.

Meðal ákærðu voru 1.990 Íslendingar, 218 Pólverjar og 117 Litháar.

119 gæsluvarðhaldsúrskurðir voru gefnir út vegna 108 einstaklinga en dagar í gæsluvarðhaldi töldu samtals 10.362.

Í ársskýrslunni segir að kórónuveirufaraldurinn hafi haft áhrif á meðferð mála á öllum stigum.

„Bæði vegna sóttvarnaaðgerða sem snúa að starfsmönnum réttarvörslukerfisins og vinnuumhverfinu og svo sóttvarnareglna sem höfðu áhrif á það t.d. hvort hægt var að fá fólk til skýrslutöku og hvort það væri framkvæmanlegt m.t.t. sóttvarnaregla. Einna mestur dráttur varð á meðferð mála fyrir dómstólum og voru því mörg sakamál óafgreidd þar um áramótin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×