Atvinnulíf

„Það eru bara fyrstu tvö skrefin sem eru erfið“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Lukka Pálsdóttir, frumkvöðull, sjúkraþjálfari, einkaþjálfari og jógakennari.
Lukka Pálsdóttir, frumkvöðull, sjúkraþjálfari, einkaþjálfari og jógakennari. Vísir/Vilhelm

Unnur Guðrún Pálsdóttir, sem alltaf er kölluð Lukka, viðurkennir að vinnan í Greenfit á hug hennar allan. Hún segir markmið Greenfit að bjarga heilbrigðiskerfinu og fjárhag landsmanna því þar er viðskiptavinum kennt að lesa lykiltölur sínar varðandi heilsu. Sjálf elskar hún þennan árstíma þegar haustið er að byrja. Sérstaklega þá morgna þegar hún vaknar snemma og skellir sér út að hjóla.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Nú er haustið mætt með sinni yndislegu rútínu og þá vakna ég snemma virka morgna og hendi mér á hjólið í klukkutíma fyrir vinnu þrjá daga vikunnar. Vekjarinn hringir kl.5:15 og ég snúsa nú stundum einu sinni eða svo en dríf mig svo undan sænginni og út í hjólagallanum. Ég elska að byrja morguninn á góðri hreyfingu og mæti eldhress í vinnuna eftir hjólatímann.

Mér þykir ekkert alltaf auðvelt að skríða undan sænginni en það eru bara fyrstu tvö skrefin sem eru erfið. 

Ég hef að minnsta kosti aldrei upplifað það að hugsa eftir góða æfingu „ohhhhh ég hefði átt að kúra lengur og sleppa þessari hressandi hreyfingu!“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Ég byrja daginn á hreyfingu og vatnsglasi en svo hlakka ég til að hitta vin minn kaffibollann um leið og ég er búin í sturtu. Ég mæti svo í vinnuna klukkan átta og líður hrikalega vel að vera búin með æfingu dagsins og klár í að hitta viðskiptavini sem oftar en ekki gleðja mig með árangri sem er fram úr björtustu vonum.Ég nýt þeirra forréttinda að hlakka alltaf til vinnudagsins og starfa við að hjálpa fólki að viðhalda heilbrigði, auka orku og vellíðan og koma í veg fyrir sjúkdóma.“

Hvernig myndir þú lýsa frábærum laugardegi?

„Laugardagar eru uppáhalds! Það fer eftir árstíma hvernig drauma laugardagurinn er en ein útgáfa væri þessi:

Vakna snemma og eiga stefnumót við einhverjar af hreyfiglöðu vinkonum mínum. Við færum á fjalla- eða gönguskíði í blíðunni sem alltaf er á laugardagsmorgnum. Puð í nokkra tíma í góðum hópi fólks, gott rennerí og smá hlátur niður brekkurnar og bruna svo aftur í bæinn endurnærð.

Kaffi í Bankastrætinu með fastakúnnum þar og jafnvel heitur pottur og sjósundsdýfa í vinkonuhúsi á Seltjarnarnesi.

Elda kvöldmat í fyrra fallinu og njóta augnabliksins þegar ég splitta einum köldum með eiginmanninum á meðan við undirbúum kvöldmatinn og nörtum í góðan ostbita og ólífur. Spjöllum um daginn og veginn og hlökkum til að taka á móti góðum gestum í kvöldmat.“

Lukka segir Íslendinga eiga inni mikil tækifæri þegar kemur að heilbrigðri ævi, miklu munar þar að hver og einn læri að lesa úr sínum eigin lykiltölum. Laugardagarnir eru uppáhald hjá Lukku sem lýsir í kaffispjallinu hvernig draumadagur væri.Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Þessa dagana á Greenfit hug minn allan. Þar vinnum við að því að bjarga bæði heilbrigðiskerfi og fjárhag landsmanna með því að kenna fólki að lesa í lykiltölur sínar varðandi heilsu.

Það að vita hvar þú ert staddur í dag er lykilatriði til þess að geta tekið ákvarðandir um hvert skal halda. Við mælum hjá fólki lykiltölur er varða heilbrigði svo sem blóðsykur, blóðfitur, súrefnisupptöku, öndun og fleira.

Munurinn á okkur og heilsugæslunni er að við getum gefið okkur tíma með hverjum og einum í að kenna fólki að lesa sjálft úr sínum lykiltölum. 

Ef hver og einn þekkir sín gildi og veit hvaða þýðingu þau hafa þá eru mun meiri líkur á að fólk nái að halda í heilbrigði lengra út ævina.

Við erum langlíf þjóð en eigum inni gríðarlegt tækifæri þegar kemur að heilbrigðri ævi. Meðal Íslendingur eyðir síðustu fjórtán æviárunum við skerta heilsu og lífsgæði en það þarf ekki að vera svo. Getan og þekkingin til að breyta því er til staðar. Við þurfum bara að nýta hana.

Það ætti að vera norm að þegar að lífslokum kemur þá gerist það í hárri elli, heima hjá okkur, eftir góðan hjólatúr eða golfhring og skemmtilega stund með okkar nánustu. En ekki eftir áratuga baráttu við langvinna sjúkdóma, vanlíðan og skert lífsgæði.

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Vinnudagurinn minn er mjög fjölbreyttur og spennandi áskoranir á hverjum degi til að leysa. Ég er sveimhugi og hrífst auðveldlega af góðum hugmyndum og verð þá iðulega svo spennt að mig langar til að ganga strax í að framkvæma þær. Þetta ásamt því að vinna með vinnufélögum sem eru eins og lifandi hugmyndabankar gerir alla vinnudaga lifandi.

Það er því nauðsynlegt fyrir sveimhuga eins og mig að búa til ramma og ég nota google calendar óspart og set þar inn bæði fundi og verkefni sem ég þarf að muna eftir. Minnislistar og tékklistar eru miklir vinir mínir. Stundum þegar ég er að vaða úr einu í annað allan daginn þá líður mér í lok dags eins og ég hafi ekki áorkað nægjanlega miklu og þá er gott að renna yfir lista og sjá að það varð nú margt gott úr deginum.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Þegar ég kemst í þessa góðu rútínu að vakna snemma og æfa á morgnana þá er nauðsynlegt að fara snemma að sofa. Ég fer oftast upp í rúm milli tíu og ellefu og viðurkenni fúslega þann ósið minn að horfa á einn lítinn þátt áður en ég sofna. 

Ég horfi almennt afar lítið á sjónvarp og er oftar en ekki með tölvuna á hnjánum á kvöldin að sinna vinnunni á einn eða annan hátt. Enda er vinnan aðal áhugamál mitt og því gaman að sinna sumum þáttum hennar í rólegheitum á kvöldin eins og að sækja sér meiri og dýpri þekkingu. 

En mér finnst eitthvað gott við nokkrar mínútur af uppáhalds þættinum mínum áður en ég sofna. Það er reyndar oftar en ekki þannig að ég sofna mjög fljótlega og því getur einn þáttur enst mér dögum ef ekki vikum saman!“


Tengdar fréttir

„Þótti Helgu betra að láta mig svelta en hundinn“

Morgnarnir eru miklar gæðastundir hjá Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra, en bestu stundirnar eru úti í náttúrunni. Hápunktur sumarsins var fjögurra daga ganga með kærustunni og hundinum, sem þó endaði þannig að sá síðastnefndi fékk nánast allan matinn. Ásgeir viðurkennir að það að skipan seðlabankastjóra sé tímabundin ráðning, mótar mikið hvernig hann nálgast starfið. 

Vakin með knúsi en tjaldútilegurnar með eiginmanninum bestar

Alma Dagbjört Möller landlæknir fær knús frá hundunum sínum þegar hún vaknar eldsnemma á morgnana og hlakkar alltaf til dagsins. Hún segir tjaldútilegu með eiginmanninum á hálendinu bestu leiðina til að aftengja sig frá daglegu amstri og í sumar fékk hún það nýja hlutverk að fara í morgungöngur með tvíburaömmustelpur í vagni. Í vinnunni gerir hún það sama og svo margir: Skrifar niður lista yfir helstu verkefni dagsins.

Hefur hringt í vin sinn alla morgna í fimmtán ár og þeir hvetja hvor annan

„Ég gæti trúað því að það sé hægt að flokka mig sem frumkvöðul, annars held ég að ég viti ekki enn hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór, það er svo margt sem mig langar að gera. Kannski þarf maður ekki að vera neitt heldur bara margt,“ segir Eyþór Guðjónsson einn eiganda Sky Lagoon á Kársnesi, aðspurður um starfstitilinn.

Í skemmtilegri tilraun á Facebook og skrifar í þakklætisbók daglega

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, yfirmaður samskipta- og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaráli, segist vera mikil áskorunarmanneskja sem mætti þó bæta sig aðeins í skipulaginu. Dagmar skrifar í þakklætisbók kvölds og morgna og fór í áhugaverða tilraun á samfélagsmiðlunum. Hætti á Instagram og síðar í öllu á Facebook nema einstaka hópum. Dagmar segir erfiðara að fara í frí frá Facebook en Instagram.

Byrjar daginn á því að leita að fuglum og köttum

Það kann að hljóma furðulega að Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, byrji daginn á því að leita að fuglum og köttum. Skýringin er reyndar einföld því morgunrútínu Halldórs er meðal annars stjórnað af yngstu dóttur hans, sem vekur pabba sinn hispurslaust klukkan hálfsjö. Halldór átti sér stóra drauma þegar hann var lítill. Til dæmis að verða tígrisdýr. Í dag eru það hins vegar hjól atvinnulífsins í kjölfar Covid og bólusetninga sem Halldór er með hugann við og í skipulagi heldur hann trygglyndi við Outlook dagatalið.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.