Golf

Rahm bestur báða dagana en Cantley í forystu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Cantley (t.v.) og Rahm (t.h.) berjast á toppnum. Þriðji hringur mótsins hefst í dag.
Cantley (t.v.) og Rahm (t.h.) berjast á toppnum. Þriðji hringur mótsins hefst í dag. Cliff Hawkins/Getty Image

Bandaríkjamaðurinn Patrick Cantley er enn í forystu að tveimur hringjum loknum á Tour Championship, lokamóti PGA-mótaraðarinnar, sem fram fer á East Lake-vellinum í Georgíuríki í Bandaríkjunum.

Cantley hefur ekki leikið manna best á mótinu en er þrátt fyrir það í forystu. Fyrirkomulag mótsins er þannig að kylfingar hefja ekki leik á jafningjagrundvelli, heldur markast skor þeirra í upphafi á árangri þeirra á PGA-mótaröðinni fyrr á árinu.

Cantley hóf keppni í fyrradag á tíu höggum undir pari en lék á þremur undir parinu á fyrsta hring til að halda forystunni. Spánverjinn Jon Rahm lék þá á fimm undir pari og var aðeins tveimur höggum á eftir Cantley eftir fyrsta hringinn, en hann hafði hafið keppni á sex undir pari.

Rahm hélt uppteknum hætti í gær. Aftur lék hann á 65 höggum, fimm undir pari, og minnkaði bilið á toppnum um helming. Cantlay lék á 66 höggum og er á 17 undir pari í heildina en Rahm er á 16 undir.

Þeir félagar eru með töluvert forskot á næstu menn, en mótið er þó aðeins hálfnað og ljóst að margt getur breyst. Bryson De Chambeau er á ellefu undir parinu í þriðja sæti, Justin Thomas er á tíu undir, en báðir léku á þremur undir pari í gær.

Þá eru Tony Finau, Kevin Na, Viktor Hovland, Cameron Smith og Harris English næstir á níu undir pari.

Rory McIlroy lék á fjórum höggum undir pari í gær og fór upp um sjö sæti. Hann er á átta undir pari í heildina, jafn þeim Jordan Spieth og Louis Oosthuizen í 10.-12. sæti.

Þriðji hringur mótsins fer fram í dag. Hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Golf klukkan 17:00.

Öll stærstu golfmótin eru á Stöð 2 Golf en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Stöð 2 Golf kostar 3.990 krónur á mánuði en er einnig hluti af Sportpakkanum. Helgarpassa að Stöð 2 Golf má kaupa á kerfum Vodafone.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×