Körfubolti

LA Clippers „losar sig“ við Patrick Beverley og Rajon Rondo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rajon Rondo hjálpaði LeBron James að vinna sinn fyrsta NBA titil með Los Angeles Lakers árið 2020.
Rajon Rondo hjálpaði LeBron James að vinna sinn fyrsta NBA titil með Los Angeles Lakers árið 2020. Getty/Douglas P. DeFelice

Los Angeles Clippers hefur náð samkomulagi við Memphis Grizzlies um að skipta á leikmönnum fyrir komandi tímabil í NBA-deildinni.

Samkvæmt frétt ESPN mun Eric Bledsoe fara frá Memphis Grizzlies til Clippers í skiptum fyrir þá Patrick Beverley, Rajon Rondo og Daniel Oturu.

Með þessum tilfærslum þá sparar Los Angeles Clippers sér meðal annars 30 milljónir Bandaríkjadala í lúxusskatt.

Clippers valdi Bledsoe í nýliðavalinu árið 2010 en hann er nú 31 árs gamall. Hann spilaði fyrstu þrjú tímabil sín í NBA með Clippers og var með 12,2 stig og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í leik með New Orleans Pelicans á síðustu leiktíð.

New Orleans Pelicans hafði fyrr í þessum mánuði skipt Bledsoe til Memphis Grizzlies en hann náði því aldrei að spila með Grizzlies. Þetta eru þriðju skipti hans á innan við ári en hann fór frá Milwaukee Bucks til Grizzlies í fjögurra liða skiptum í nóvember í fyrra.

Beverley hefur verið vinsæll leikmaður hjá Clippers þar sem hann hefur verið í fjögur ár. Hann missti byrjunarliðssætið sitt til Reggie Jackson í úrslitakeppninni.

Bæði Beverley og Rondo áttu aðeins eitt ár eftir af samningi sínum. Rondo var með 5,4 stig og 4,4 stoðsendingar í leik á síðasta tímabili sem hann byrjaði sem leikmaður Atlanta Hawks áður en honum var skipt til Clippers í mars.

Rajon Rondo hefur bæði orðið NBA meistari með Boston Celtics og Los Angeles Lakers en hélt ekki áfram með Lakers eftir að hann vann titilinn 2020.  Hann er orðinn 35 ára gamall.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×