Viðskipti innlent

Bein út­­sending: Tíu sprota­­fyrir­­­tæki fá fimm mínútur til að heilla fjár­­festa

Eiður Þór Árnason skrifar
Fjárfestadagurinn fer fram í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýri. 
Fjárfestadagurinn fer fram í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýri.  Gróska

Botninn verður sleginn í viðskiptahraðalinn Startup SuperNova í dag þegar fjárfestadagur fer fram í Grósku hugmyndahúsi klukkan 13. Tíu sprotafyrirtæki sem voru valin úr 85 umsóknum munu þar kynna hugmyndir sínar.

Hægt er að fylgjast með viðburðinum í spilaranum hér fyrir neðan en hvert fyrirtæki hefur fimm mínútur til að kynna sig og í kjölfarið svara spurningum úr pallborði. Í því sitja Magnús Scheving athafnamaður og Hekla Arnardóttir, meðeigandi Crowberry Captial.

Elsa Bjarnadóttir hjá Icelandic Startups opnar viðburðinn en síðan mun Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, ávarpa samkomuna. 

Erlingur Brynjúlfsson, meðstofnandi og CTO hjá Controlant, verður með erindi en hann hefur leitt vöruþróun fyrirtækisins síðustu tíu ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandic Startups en félagið keyrir nú viðskiptahraðalinn Startup SuperNova í samstarfi við Nova og Grósku annað árið í röð.

Vetnisframleiðsla og sjálfbær útivistarfatnaður

Sprotafyrirtækin sem taka þátt í hraðlinum hafa síðustu tíu vikur meðal annars sótt vinnustofur í gerð viðskiptaáætlana, markaðssetningu og vöruþróun. Að sögn Icelandic Startups hafa þau til viðbótar farið í yfir þrjátíu viðtöl við reynslubolta úr viðskiptalífinu sem hafa gefið þeim endurgjöf á þeirra hugmyndir og framkvæmd.

Fyrirtækin sem kynna starfsemi sína eru fjölbreytt: IðunnH2 stefnir á framleiðslu á vetni til útflutnings, Wildness framleiðir sjálfbæran útivistarfatnað, meðal annars úr plasti sem fangað er úr hafinu, og Swapp Agency sýnir vel hvernig hægt er að nýta tækifæri í krísum en þau hafa sérhæft sig í endurstaðsetningu starfsfólks til að mæta aukinni þörf fyrir fjarvinnu milli landa.

Dagskrá

12:30 Húsið opnað

13:00 Dagskrá hefst - kynnir og opnun frá Icelandic Startups / Elsa Bjarna

13:10 Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra

13:15 Erlingur Brynjúlfsson, meðstofnandi og CTO hjá Controlant

13:30 Kynningar frá 5 sprotafyrirtækjum Startup SuperNova viðskiptahraðalsins

14:20 10 mínútna hlé

14:30 Kynningar frá 5 sprotafyrirtækjum Startup SuperNova viðskiptahraðalsins

15:30 Viðburði lýkur





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×