Erlent

Nærri 200 skjaldbökur hafa drepist í einu versta umhverfisslysi Sri Lanka

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Unnið hefur verið að því að hreinsa agnarsmáar plastperlur af ströndinni, en skipið flutti meðal annars hráefni til plastframleiðslu.
Unnið hefur verið að því að hreinsa agnarsmáar plastperlur af ströndinni, en skipið flutti meðal annars hráefni til plastframleiðslu. Getty/Pushpa Kumara

Fjölda dauðra skjaldbaka hefur skolað á land á vesturströnd Sri Lanka eftir versta umhverfisslys af mannavöldum í sögu landsins. Meðal annarra dýra sem hafa drepist í kjölfar slyssins eru höfrungar og hvalir.

Eldur kom upp í flutningaskipinu MV X-Press Pearl 20. maí síðastliðinn en um borð voru nærri 1.500 gámar af ýmsum varningi. Skipið sökk 2. júní, þegar viðbragðsaðilar freistuðu þess að draga það frá ströndinni.

Skipið er skráð í Singapore en rússneskur skipstjórinn var leiddur fyrir dómara í gær. Hann hefur þó ekki verið formlega ákærður.

Um borð í skipinu voru meðal annars 25 tonn af saltpéturssýru auk annarra efna. Eiturefni frá flakinu eru sögð hafa valdið dauða að minnsta kosti 176 skjaldbaka, 20 höfrunga og fjögurra hvala.

Sjálfboðaliðar hafa unnið að því að fjarlægja hræin og annað rusl frá flakinu af ströndinni. Yfirvöld hafa aflétt fiskveiðibanni á hluta svæðisins en sérfræðingar segja sjávarlífríkinu enn standa ógn af umhverfisáhrifum skipskaðans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×