Neytendur

Bar skylda til að upplýsa um gamalt lekavandamál í einbýlishúsi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Einbýlishúsið sem deilt var um fyrir dómi er á Blönduósi.
Einbýlishúsið sem deilt var um fyrir dómi er á Blönduósi. Vísir/Vilhelm

Hjón á Blönduósi hafa verið dæmd til að greiða hjónum og syni þeirra tæplega tíu milljónir króna vegna galla á einbýlishúsi sem þau seldu þeim árið 2016. Kaupverð eignarinnar var 22 milljónir króna og vildu kaupendurnir að samningnum yrði rift.

Seljendurnir gerðu gagnkröfu fyrir dómi að yrði fallist á riftun kaupsamnings þyrftu kaupendurnir að greiða þeim 9,6 milljónir króna fyrir afnot af húsinu frá kaupdegi til dagsins í dag, miðað við 200 þúsund króna gjald á mánuði.

Í dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra kemur fram að kaupsamningur um fasteign að Húnabraut á Blönduósi hafi verið undirritaður 1. apríl 2016. Kannski viðeigandi því segja má að ýmislegt hafi verið í plati sem átti eftir að koma síðar í ljós.

Lekavandamál í haustlægð

Kaupendur urðu varir við leka í eigninni haustið 2016. Fengu þau verkfræðistofu til að taka húsið út og lá niðurstaða fyrir í febrúar 2017. Var þá ljóst að eignin þarfnaðist verulegra viðgerða. Ráðast þyrfti í verulega framkvæmdir og var mat skoðunarmanns að þær gætu kostað milljónir króna, ef ekki tugmilljónir.

Kaupendur lýstu yfir riftun á kaupsamningi í febrúar 2020 eftir misheppnaðar viðræður við seljendur um lausn í málinu. Í ljósi þess að þrjú ár liðu frá því að gallinn kom í ljós og þar til lýst var yfir riftun féllst dómurinn ekki á kröfu um riftun. Kaupendur hefðu glatað rétti sínum til þess með tómlæti. Að sama skapi var þá krafa seljenda um bætur ekki tekin til skoðunar.

Dómurinn taldi kaupendurna þó ekki hafa fyrirgert rétti sínum til skaðabóta eða afsláttar af kaupverðinu enda hefðu þeir gert kröfu um slíkt allt frá því snemma árs 2017. Kröfur um skaðabætur voru í sex liðum.

Bætur vegna múrviðgerðar og ónýts þaks á bílskúr

Fyrsta krafan var um 3,7 milljónir í bætur vegna kostnaðar við múrviðgerð. Seljendur voru meðvitaðir um leka sem varð í húsinu árið 2013. Þau létu kaupendur ekki vita af honum og báru fyrir að þau hefðu talið vandamálið vera úr sögunni.

Dómurinn taldi viðgerðir greinilega ekki hafa verið fullnægjandi. Þá hefðu þau átt að greina kaupendum frá vandamálinu sem hefði komið upp. Var því fallist á þessa kröfu kaupenda.

Sömuleiðis féllst dómurinn á kröfu um fimm milljónir króna í bætur vegna þess að þak á bílskúr var ónýtt. Engin leið var fyrir kaupendur að átta sig á því að þakið væri skemmt við kaupin og hafi heldur ekki verið við seljendur að sakast. Var fallist á þá kröfu kaupenda.

Þá var fallist á að seljendur ættu að greiða kaupendum 768 þúsund krónur fyrir kostnað við vinnupalla, spörtlun og málun.

Lagnir, gluggar og svalir komin til ára sinna

Hins vegar var ekki fallist á kröfur um milljónir í bætur vegna úrbóta á neyslu- og hitavatnslögnum enda hefði ekkert komið fram um að um leyndan galla væri að ræða. Þær væru einfaldlega komnar til ára sinna vegna aldurs.

Þá var ekki fallist á kröfur um bætur vegna endurbóta á svölum enda hafi slæmt ástand þeirra verið öllum augljóst við undirritun kaupsamnings. Sömu sögu var að segja um kröfu um bætur vegna endurbóta á gluggum.

Samanlagður kostnaður við að bæta úr göllum nam því tæplega tíu milljónum króna eða rúmlega 45% af kaupverði eignarinnar. Samkvæmt fasteignalögum telst eignin því gölluð og eiga því rétt á afslætti af kaupverði.

Dráttarvextir voru miðaðir við mánuð frá þingfestingu. Þá voru seljendurnir dæmdir til að greiða hluta af málskostnaði kaupenda, alls eina milljón króna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×