Samstarf

Unglingalandsmót UMFÍ verður kolefnisjafnað

UMFÍ
Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina þar sem boðið verður upp á 24 íþróttagreinar fyrir alla þátttakendur 11-19 ára og afþreyingu fyrir alla fjölskylduna fram á kvöld.
Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina þar sem boðið verður upp á 24 íþróttagreinar fyrir alla þátttakendur 11-19 ára og afþreyingu fyrir alla fjölskylduna fram á kvöld.

Unglingalandsmót UMFÍ 2021 fer fram 29. júlí - 1. ágúst á Selfossi.

Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina verður kolefnisjafnað. Jöfnunin felst í því að gróðursettar verða tvær trjáplöntur fyrir hvern þátttakenda á Unglingalandsmótinu. Gestum mótsins og þátttakendum verður boðið að koma á golfvellinum á Selfossi á meðan mótinu stendur þar sem þeir geta gróðursett plönturnar. Önnur plantan sem hver þátttakandi fær táknar viðkomandi en hin plantan fjölskyldu viðkomandi.

Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri hjá Skógræktinni er umsjónarmaður með kolefnisjöfnun Unglingalandsmótsins.

„Þegar við fjölskyldan tókum þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði árið 2019 sá ég öll farartækin sem þar voru saman komin og fékk þá hugmynd að kanna áhugann á því að kolefnisjafna mótið með gróðursetningu trjáplantna. Við ræddum þetta hér á kaffistofunni hjá Skógræktinni og var humyndinni komið á framfæri við HSK og vel var tekið í hana,“ segir Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri hjá Skógræktinni og umsjónarmaður með kolefnisjöfnun Unglingalandsmótsins. Hreinn er líka sérgreinarstjóri í götuhjólreiðum á mótinu.

Fengu styrk úr Umhverfissjóði UMFÍ

„Við verðum með plöntur til taks á mótssvæðinu og stefnum á að gróðursetja svæðin milli brauta á vellinum. Það verður opið í gróðursetningu á ákveðnum tímum sem auglýstir verða síðar og geta þátttakendur komið og gróðursett tré á meðan enn verða til plöntur,“ heldur Hreinn áfram.

Götuhjólreiðar eru ein keppnisgreina á mótinu.

„Við erum að slá nokkrar flugur í einu höggi á Selfossi. Í fyrsta lagi kolefnisjöfnum við auðvitað mótið á næstu árum og áratugum eftir því sem trén vaxa, búum til skjól fyrir golfara og vonum svo auðvitað að þetta verði framvegis gert í gróðurreitum víða um land sem tileinkaðir verði ákveðnum viðburðum UMFÍ,“ segir Hreinn.

Framkvæmdanefnd Unglingalandsmótsins á Selfossi fékk styrk úr Umhverfissjóði UMFÍ árið 2020 til að kolefnisjafna mótið og verður það samstarfsverkefni Skógræktarinnar, HSK, Golfklúbbs Selfoss, mótshaldara Unglingalandsmótsins. Því var frestað eins og fleiri viðburðum í fyrra. Nú er hins vegar komið allt á fullt við undirbúning mótsins um verslunarmannahelgina.

Mótin eru yfirleitt fyrir 11-18 ára en í ár geta 19 ára einnig tekið  þátt.

Fjölskyldustuð á Selfossi um verslunarmannahelgina

Allt er á fullu á Selfossi við undirbúning Unglingalandsmóts UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina. Búist er við á annað þúsund þátttakendum frá 11-19 ára ásamt fjölskyldum þeirra. Boðið verður upp á 24 stórskemmtilegar greinar, fjölbreytta afþreyingu fyrir alla fjölskylduna, íþróttir á daginn og tónleika á kvöldin.

Verið er að útbúa risastórt tjaldsvæði við Suðurhóla í útjaðri Selfoss fyrir þátttakendur af öllu landinu. Svæðið er í göngufæri við mótssvæðið en strætó gengur líka á milli. Til að skapa frábæra stemningu og gæta öryggis þátttakenda og mótsgesta verður ákveðnum götum lokað í kringum nokkra viðburði á Selfossi um verslunarmannahelgina.

Búist er við á annað þúsund þátttakendum á mótið.

Unglingalandsmót UMFÍ 2021 fer fram 29. júlí - 1. ágúst á Selfossi. Skráningargjald er 7.900 krónur og hefst skráning 1. júlí.

Vefsíða mótsins er www.ulm.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×