Atvinnulíf

Elti drauminn í kjölfar atvinnumissis í Covid

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Gunnar Ingi Svansson framkvæmdastjóri Cin Cin og sonurinn Dagur, tíu mánaða. Að undirbúa rekstur fyrirtækis og fæðingarorlof var samtvinnað í kjölfar atvinnumissis í Covid.
Gunnar Ingi Svansson framkvæmdastjóri Cin Cin og sonurinn Dagur, tíu mánaða. Að undirbúa rekstur fyrirtækis og fæðingarorlof var samtvinnað í kjölfar atvinnumissis í Covid. Vísir/Vilhelm

„Ég missti vinnuna í fyrstu bylgju Covid, en ég hafði unnið í rétt yfir ár hjá Innnes. Þá var Sunna komin sex mánuði á leið með yngri strákinn okkar,“ segir Gunnar Ingi Svansson framkvæmdastjóri Cin Cin um aðdragandann að því að hann stofnaði fyrirtæki sem selur óáfenga eða lítið áfenga drykki. „Þarna var fullt af fólki að missa vinnuna og ég sá fyrir mér að hin hefðbundna atvinnuleit gæti orðið erfið. Sú hugsun ýtti undir þá hugmynd að þetta væri rétti tíminn til að elta drauminn,“ segir Gunnar.

Gunnar Ingi Svansson er einn af mörgum sem missti starfið sitt í kjölfar Covid. Þegar Gunnar missti starfið, áttu þau hjónin von á sínum öðru barni eftir þrjá mánuði.

Að missa starfið setti svo sannarlega strik í reikninginn hjá ungri fjölskyldu enda viðurkennir Gunnar að eflaust hefði hann ekki farið í sinn eiginn rekstur, nema vegna þessara aðstæðna sem komu upp.

„Þarna hugsaði ég með mér að ef ekki núna þá hvenær?“ segir Gunnar.

Draumurinn

Gunnar Ingi er viðskiptafræðingur með meistaragráðu í markaðsfræði. Hann og eiginkona hans, Sunna Dóra Einarsdóttir, bjuggu í rúm sjö ár í Árósum í Danmörku þar sem þau stunduðu nám og vinnu.

Þegar hjónin fluttu heim, réði Gunnar Ingi sig sem sölustjóri hjá Te & kaffi.

Þetta var árið 2014 og hjá Te & kaffi starfaði Gunnar í rúm fimm ár.

Árið 2019 réði hann sig til Innnes en missti það starf í fyrstu bylgju Covid.

Fljótlega eftir atvinnumissinn stofnaði Gunnar Cin Cin en drykkirnir sem Cin Cin flytur inn og selur kallast NOLO drykkir. 

Sú nafngift skýrist af því að drykkirnir eru óáfengir eða lítið áfengir, sem á ensku útlistast No alc eða Lo alc, samsett sem skammstöfunin NOLO.

Það er tvennt sem ýtir manni út í þetta, maður verður að hafa þetta markmið að láta drauminn rætast til að koma auga á tækifærið þegar það gefst og það gerðist í Covid en svo má segja að eftir á að hyggja hefði ég örugglega ekki stigið þetta skref á þessum tímapunkti nema að mér hefði verið ýtt út í það og því er jafnljóst að maður þarf gott bakland, sem bæði ég og við hjónin höfum,“ 

segir Gunnar.

Þegar þetta var, áttu Gunnar og Sunna Dóra dótturina Sögu sem nú er að verða fjögurra ára. Sonurinn Dagur fæddist síðan þremur mánuðum eftir atvinnumissinn.

Gunnar Ingi var einn af mörgum sem missti starfið sitt í fyrstu bylgju Covid. Þá voru góð ráð dýr en úr stofunni heima er nú rekið fyrirtækið Cin Cin sem nýtur vaxandi velgengni. Fjölskyldumynd: Hjónin Sunna Dóra Einarsdóttir og Gunnar Ingi Svansson með Sögu sem er að verða fjögurra ára og Dag sem er tíu mánaða.

„Sunna er í mjög krefjandi starfi sem meðeigandi, sviðsstjóri og fjármálastjóri hjá Deloitte og er þannig fjölskyldulífið eðli málsins samkvæmt stundum dálítið púsl,“ segir Gunnar og bætir við: „Ég hef tekið meira fæðingarorlof en hún með bæði börnin okkar, sem ég er ótrúlega þakklátur fyrir af því við sjáum það að við erum bæði alveg jafn tengd þeim.“

Að finna góða hugmynd fyrir rekstur

„Það hafði lengi blundað í mér að ef rétta tækifærið kæmi upp þá væri gaman að stofna sitt eigið fyrirtæki,“ segir Gunnar sem auðvitað stóð þó frammi fyrir því sama og margir:

Hvernig er hægt að finna góða hugmynd fyrir eiginn rekstur?

„Stuttu eftir að ég missti vinnuna hafði Erik, félagi minn samband sem býr í Kaupmannahöfn og sagði mér frá fyrirtæki sem heitir ISH og framleiddi óáfenga drykki sem væru að vekja mikla athygli og það sem betra var, þeir höfðu áhuga á að skoða hvort að það væri grundvöllur að selja þá á Íslandi,“ segir Gunnar um upphafið á Cin Cin.

Eftir þetta samtal, réðist Gunnar í að skoða málin. 

Þar á meðal skoðaði hann vel markaðinn og hvaða tækifæri hann teldi vera fyrir vörur ISH, hvernig þær teldust af gagnrýnendum standast í samanburði við aðrar og fleira.

Sunna var reyndar líka búin að spotta drykkina þeirra á dönskum samfélagsmiðlum nokkrum mánuðum áður og sagði orðrétt: „Vá ég vildi óska að þetta væri til á Íslandi,“ 

segir Gunnar og bætir því við að lengi vel hafi vantað meira úrval góðra drykkja fyrir fólk sem drekkur ekki áfengi eða til dæmis konur sem eru óléttar eða með börn á brjósti.

Gunnar segist því strax hafa fengið á tilfinninguna að þarna gæti hann verið að ramba inn á mjög gott tækifæri. 

Ekki síst vegna þess að ISH drykkirnir höfðu unnið hverja viðurkenninguna á eftir annarri fyrir framúrskarandi bragðgæði.

Fyrir markhópinn skipti máli að drykkirnir séu bæði heillandi og góðir í senn.

„Það er bara ekki það sama að skála í góðra vina hópi í sódavatni, og viðskiptavinir okkar hafa sérstaklega haft á orði að núna líði þeim eins og þau séu 100% með í stemningunni,“ segir Gunnar.

Óáfengir eða lítt áfengir drykkir Cin Cin fást nú víða en á ensku eru drykkir sem þessir oft kallaðir NOLO drykkir. Það skýrist af því að á ensku kallast þeir No alc eða Lo alc sem samsett er sem samheitið NOLO.Vísir/Cin Cin

Salan og stemningin

Með prufurnar frá ISH voru línurnar lagðar fyrir rekstrinum. En fljótlega rakst Gunnar á annað tækifæri.

„Við spottuðum svo Thomson & Scott sem eru með frábæra vöru sem heitir Noughty og er óáfengt, lífrænt, vegan freyðivín. Sagan á bak við stofnun þess fyrirtækis er líka mjög skemmtileg, en stofnandinn sem heitir Amanda Thomson og var áður fréttakona hjá BBC áður en hún tók U beygju og fór í þessa vöruþróun í fyrirtæki sem er rekið af samhentri fjölskyldu og vinum,“ segir Gunnar.

Gunnar segir stöðuna ekkert ólíka hjá Cin Cin. Þar hjálpist allir að við að koma fyrirtækinu vel á laggirnar.

Vinir og vandamenn.

Mamma sér um bókhaldið og Sunna heldur manni öguðum með fjármálaferla og slíkt. 

Mágur minn almannatengillinn Ingvar Örn Ingvarsson er í stjórn, vinur hans Gísli Jensson sem er vínþjónn með meistaragráðu er líka í stjórn og jafnframt Katrín Ýr Magnúsdóttir vinkona okkar, reynslubolti í stefnumótun með mikla alþjóðlega reynslu í viðskiptalífinu. 

Æskuvinur minn Ágúst Ævar Guðbjörnsson sér svo um vef og hönnun,“ 

segir Gunnar.

Í dag flytur Cin Cin inn úrval af drykkjum og meira mun bætast við á næstunni.

„Við höfum bætt við okkur smátt og smátt nýjum og skemmtilegum vörum frá heimsklassaframleiðendum í óáfengum gæðadrykkjum og í dag bjóðum við uppá freyðivín, rauðvín, hvítvín, rósavín, tilbúna kokkteila, gin og romm. Framundan eru síðan fullt af spennandi drykkjum á leiðinni þannig að öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Gunnar.

Í dag eru Nolo drykkirnir frá Cin Cin seldir víða. Til dæmis í verslunum Hagkaups, Krónunni, Melabúðinni og Heimkaup. Þá eru sérvöruverslanir eins og Dimm Verslun, Vegan Búðin og Rambastore með drykkina frá Cin Cin til sölu.

Fjölmörg veitinga- og kaffihús hafa nú þegar bætt Nolo drykkjum Cin Cin á vínseðlana sína. Til dæmis Snaps, Finnsson Bistro, Fiskmarkaðurinn, Sætar syndir og Te og kaffi Garðatorgi.

Þá má nefna ferðaþjónustuaðila og vinsæla staði eins og Sky Lagoon, Hótel Sigló eða Vök Baths.

„Markmiðið er að bjóða fólki uppá fjölbreytt úrval af því besta sem gerist í óáfengum drykkjum þannig að allir geta verið með í stemmningunni þrátt fyrir að ekki sé áfengisprósenta í drykknum.“

Gunnar Ingi rekur Cin Cin heima úr stofu og segir foreldrahlutverkið ekkert ólíkt því að stofna nýtt fyrirtæki. Áskoranirnar eru margar og margir þurfa að hjálpast að. Þegar Gunnar missti vinnuna í Covid voru þrír mánuðir í að sonurinn Dagur kæmi í heiminn. Dagur er nú tíu mánaða, alsæll með reksturinn heima fyrir.Vísir/Vilhelm

Góðu ráðin

Að flytja inn drykki, dreifa til söluaðila, selja í gegnum vefverslun, fjölga viðskiptavinum og halda uppi góðu þjónustustigi kallar á mikla vinnu.

Ekki síst þegar stofnandinn er í flestum hlutverkum daglegra starfa sjálfur og því til viðbótar að sinna tíu mánaða syni þeirra hjóna.

Fyrirtækjareksturinn fer því fram heima í stofu, enda segir Gunnar reksturinn og foreldrahlutverkið ekkert endilega svo ólíkt.

„Það er stundum talað um að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn, það á líka við um fyrirtækjareksturinn.“

Að sögn Gunnars, er undirbúningurinn lykilatriði.

Ég held að það sem skipti öllu máli sé að setja drauma sína niður á blað. Þannig gerir maður þá að markmiðum því fyrir mér þá er það þannig að ef maður hefur ekki markmiðið þá myndi maður ekki þekkja tækifærið þegar það gefst. 

Í þessum skilningi er því ekki til neitt sem heitir heppni, heppni er nefnilega bara þegar markmið og tækifæri fara saman og þegar það gerist þá þarf maður að grípa tækifærið.“

Þá segir Gunnar mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því hvað það er í rauninni mikill tími og mikil vinna sem nýtt fyrirtæki kallar á, ekki sé nóg að vera bara með góða hugmynd og ana af stað.

Fyrrverandi fréttakona BBC Amanda Thomson vatt sínu kvæði í kross fyrir nokkrum árum og stofnaði fjölskyldufyrirtækið Thomson & Scott sem framleiðir óáfenga drykki sem Cin Cin selur. Margt er líkt með sögu þess fyrirtækis og sögu Cin Cin: Allir hjálpast að.Vísir/Cin Cin

„Fyrirtæki sem fagnar velgengni hefur í raun ekki gert neitt annað en að leysa farsællega úr öllum þeim verkefnum sem það hefur staðið frammi fyrir. Ég held að um leið og maður áttar sig á þessu þá sé maður tilbúin til að líta verkefnin öðrum augum og einsetja sér það að leysa þau. Maður verður lausnamiðaður og áttar sig á því að það er fyrirtækið, varan sem maður býður er bara einn af þáttunum í rekstrinum,“ segir Gunnar.

Gunnar segir einnig mikilvægt að fólk átti sig á því að nýtt fyrirtæki mun rekast á alls kyns mótlæti. 

Þegar slík staða kemur upp, er í rauninni ekkert annað en að reyna að leysa úr því mótlæti og takast á við það.

„Ef maður hefur ekki þessa sýn þá er ég hræddur um að fólk missi fljótt þrekið því það er erfitt að stofna fyrirtæki, og enn erfiðara að reka það.“

Fyrst og fremst hjálpi það þó að hafa ástríðuna og hugsjónina sem fylgir draumnum.

„Við höfum öll mikla ástríðu fyrir að vera með vörur sem eru framúrskarandi hvað gæði varðar og sami metnaður nær út í gegnum það hvernig við viljum standa að rekstrinu, þótt það sé auðvitað fullt af áskorunum þegar maður er að byrja,“ segir Gunnar.


Tengdar fréttir

Atvinnulaus eftir hrun og úr varð framúrskarandi fyrirtæki

Þóra Þórsdóttir var ekki bjartsýn eftir bankahrun. Atvinnuleysi blasti við og heilsunnar vegna fór hún að prófa ýmsar tilraunir með íslenskar jurtir. Úr varð fyrirtækið Urta Islandica sem nú telst eitt af framúrskarandi fyrirtækjum landsins að mati Creditinfo.

Jafnræði heima fyrir en ekki vitlaust að setja sér reglur og mörk

Við tölum oft um jafnvægi heimilis og vinnu, veltum fyrir okkur hvort vinnustaðir teljist fjölskylduvænir, hvort jafnræði ríki á milli kvenna og karla í uppeldis- og heimilisverkum og mikilvægi styttingu vinnuvikunnar. En hvað segja ungu foreldrarnir sjálfir sem stunda fulla vinnu, samhliða því að ala upp ung börn, byggja upp heimili, láta sig umhverfismálin varða og lifa á tímum samfélagsmiðla?

Rakst á auglýsingu á Facebook sem breytti öllu

„Það erfiðasta við að vera atvinnulaus og vilja virkilega fara aftur út á atvinnumarkaðinn er að fá endalaust neitanir. Síðan fylgir oft svörunum að svo svakalega margir, eða þrjú hundruð manns, hafi verið að sækja um sömu stöðu og ég,“ segir Thelma Sjöfn Hannesdóttir, rafvirki og þriggja barna móðir á Akranesi sem nú er að læra kerfisstjórn.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.