Körfubolti

Skoraði lykilkörfuna þegar aðrir biðu eftir leikhléi

Sindri Sverrisson skrifar
Giannis Antetokounmpo með boltann í leiknum við Brooklyn í nótt.
Giannis Antetokounmpo með boltann í leiknum við Brooklyn í nótt. AP/Morry Gash

Milwaukee Bucks sluppu naumlega við að lenda 3-0 undir í einvígi sínu við Brooklyn Nets í nótt þegar Bucks unnu 86-83 sigur. Utah Jazz er komið í 2-0 gegn LA Clippers eftir 117-111 sigur.

Brooklyn og Milwaukee eigast við í undanúrslitum austurdeildar. Eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum var Milwaukee undir, 83-82, þegar Giannis Antetokounmpo greip frákast 18 sekúndum fyrir leikslok.

Flestir bjuggust kannski við því að Jrue Holiday myndi biðja um leikhlé til að ákveða hvernig lokasókn Milwaukee ætti að vera en þess í stað keyrði hann að körfunni, með 11,4 sekúndur eftir, og kom liðinu yfir.

„Mér leið eins og að þeir héldu að ég myndi biðja um leikhlé. Ég held líka að ég hafi hugsað um að ég ætti að láta meiri tíma líða. En ég sá Bruce Brown einn gegn einum, svo ég lét til skarar skríða. Það gekk vel og ég náði á endanum sniðskoti,“ sagði Holiday.

Síðustu stig leiksins voru úr vítaskotum Khris Middleton. Kevin Durant reyndi þriggja stiga skot til að jafna metin með flautukörfu en það gekk ekki upp.

MIddleton var stigahæstur hjá Milwaukee með 35 stig og hann tók 15 fráköst. Antetokounmpo skoraði 33 stig og tók 14 fráköst. Hjá Brooklyn var Durant atkvæðamestur með 30 stig og 11 fráköst.

Donovan Mitchell var í aðalhlutverki hjá Utah Jazz gegn Clippers og skoraði 37 stig. Utah lokaði vörninni í lokin og Mitchell tryggði sigurinn þegar 43 sekúndur voru eftir. Hann virtist reyndar meiða sig þegar tíu sekúndur voru eftir, eftir brot Paul George, en kvartaði ekki:

„Það er í lagi með mig núna. Ég labbaði inn hingað og ef þið viljið að ég hlaupi þá get ég það. Ég er góður,“ sagði Mitchell við fjölmiðlamenn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×