Dómsins hefur beðið með mikilli eftirvæntingu, en hollenskir fjölmiðlar segja þetta vera í fyrsta sinn í sögunni sem olíufélag hefur verið dæmt til að draga úr útblæstri sínum. Shell á möguleika á að áfrýja dómnum.
Málið má rekja til þess að sjö umhverfisverndarsamtök, þeirra á meðal Friends of the Earth og Milieudefensie, auk 17 þúsund einstaklinga, stefndu Shell árið 2019.
Í dómnum er vísað í Parísarsáttmálann þar sem tvö hundruð ríki hafa skuldbundið sig til að koma í veg fyrir hlýnun á jörðinni með því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
BBC segir frá því að fjöldi umhverfisverndarsamtaka víðs vegar um heim hafi stefnt stórfyrirtækjum og leitað til dómstóla til að draga úr losun.
Shell hafði áður sagst stefna að því að verða kolefnishlutlaust fyrir árið 2050.