Viðskipti innlent

Segir búið að „dauða­dæma Vefjuna“ vegna um­mæla Reynis

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Reynir Bergmann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín um mál Sölva Tryggvasonar.
Reynir Bergmann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín um mál Sölva Tryggvasonar. Vísir

Sólveig Ýr Sigurjónsdóttir, annar eigandi veitingastaðarins Vefjunnar, segir fólk búið að dauðadæma fyrirtækið vegna ummæla sem Reynir Bergmann, hinn eigandi Vefjunnar og barnsfaðir hennar, lét falla fyrir helgi um mál Sölva Tryggvasonar fjölmiðlamanns.

„Í þessu þjóðfélagi er gjörsamlega búið að dauðadæma okkur og fyrirtækið okkar á heimasíðum okkar og í persónulegum skilaboðum og eigum við þetta bara alls ekki skilið!! Þetta er bara ALLTOF langt gengið og bið ég ykkur vinsamlegast um að hugsa ykkur tvisvar um áður en þið farið að bulla um slíkt,“ skrifar Sólveig í hringrásarfærslu á Instagram.

Vefjan er í eigu Reynis Bergmanns og Sólveigar Ýrar Sigurjónsdóttur.Vísir/Vilhelm

Mál Sölva hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarna daga en hann hefur verið kærður til lögreglu af tveimur konum sem segja hann hafa beitt sig ofbeldi. Reynir Bergmann, annar eigandi Vefjunnar og áhrifavaldur, birti á fimmtudag myndband á Instagram þar sem hann sagðist vera með Sölva í liði.

„RB er team f***ing Sölvi Tryggva. Mellur og vændiskonur fokkið ykkur,“ sagði Reynir í myndbandinu. Reynir var harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín á samfélagsmiðlum. Í kjölfarið birti Reynir annað myndband á Instagram þar sem hann sagðist hlutlaus þar til sekt væri sönnuð.

Reynir varð þekktur á Snapchat meðal annars fyrir að tala tæpitungulaust um hluti og stuða fólk. Ýmis ummæli hans hafa ratað í fjölmiðla. Til dæmis kynferðisleg ummæli sem hann lét falla í 12:00 þætti hjá nemendum Verzlunarskóla Íslands sem urðu til þess að þátturinn fór ekki í birtingu. Þá hefur hann auglýst tilboð fyrir dverga á Vefjunni og boðað tilboð fyrir homma og lesbíur sömuleiðis. 

Þá vakti mikla athygli þegar Reynir sat fyrir svörum í kvikmyndaþættinum Sjáðu á Stöð 2 og ræddi uppáhaldskvikmyndir sínar.

Segir fólk ljúga um matareitranir til að skemma fyrir fyrirtækinu

Sólveig segir í færslu sem hún birti á hringrás sinni á Instagram að hún sé búin að sitja á sér undanfarna daga vegna ummæla um veitingastaðinn þeirra Reynis. Hún sé sár og reið út í fólk sem hafi logið upp á fyrirtækið.

„Við erum búin að vinna hörðum höndum fyrir þetta fyrirtæki og þetta hefur virkilega mikil áhrif á okkur og einnig börnin okkar. Þetta umtal með að við séum að styðja ofbeldi eða nauðganir er bara ÚTÍ HÖTT,“ skrifar Sólveig.

Sólveig segir umfjöllun síðustu daga hafa lagst þungt á sig.Instagram

„Ég get ekki einu sinni sett mig í spor þolenda og mun aldrei í mínu lífi styðja slíkan viðbjóð!!! Og það að fólk sé að ljúga að því að það sé að fá matareitranir hjá okkur (til að skemma fyrir okkur) sem ég hef bara aldrei heyrt um fyrr hvorki í samskiptum á okkar miðlum né á tölvupóstum,“ skrifar Sólveig.

Hún segist vita vel að Reynir sé hvatvís en að hann hafi tekið orð sín til baka.

„Hann nefnir einnig að ekki sé hægt að dæma manneskju fyrr en það liggi fyrir dómur eins og eðlilegt er þegar að svona viðkvæmt mál kemur upp, enda hafði hann bara ekki hugmynd um neitt annað,“ skrifar Sólveig.

„Við erum búin að fá alls konar sögusagnir um þennan mann eftir að allt þetta gerðist sem VIÐ VISSUM BARA ALLS EKKI og vonum við innilega að á því verði tekið að sjálfsögðu.“


Tengdar fréttir

Saga Ýrr segir sig frá máli Sölva Tryggvasonar

Saga Ýrr Jónsdóttir hefur sagt sig frá máli Sölva Tryggvasonar fjölmiðlamanns, sem hefur verið kærður fyrir líkamsárás og kynferðisbrot. Lögmaðurinn segir sig frá málinu vegna hagsmunaárekstrar, sem hún segist hafa frétt fyrst af á fimmtudaginn.

„Mikil mistök“ að hafa snúist til varnar fyrir Sölva

Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson segir að hann hafi gert mistök þegar hann brást til varnar Sölva Tryggvasyni fjölmiðlamanni, eftir að Sölvi hafði gefið það út á netinu að hann væri saklaus af ásökunum um ofbeldi.

Lögmaður Sölva segir málið komið í réttan farveg

„Það er auðvitað komið fram núna að það séu komnar kærur og það er auðvitað bara rétti farvegurinn. Þar getur hann tekið til varna,“ segir Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður Sölva Tryggvasonar fjölmiðlamanns.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.