Atvinnulíf

Coco Puffs þá pantað og staðgreitt mánuðum fyrirfram

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Bræðurnir Pétur og Snorri í Melabúðinni.
Bræðurnir Pétur og Snorri í Melabúðinni. Vísir/Vilhelm

„Þau sigldu um heimsins höf á norsku fraktskipi. Kynntust matarmörkuðum og ferskvörum á Ítalíu, í Afríku, Japan, Panama og fleiri stöðum í Ameríku og víðar. Ég held að áhrifin frá siglingunum hafi smitast inn í Melabúðina og þau eru hér enn hluti af sjarmanum,“ segir Snorri Guðmundsson. „Já, pabbi lagði mikla áherslu á úrval og gæði og lengi vel vissu Íslendingar oft ekki hvernig ferskvara átti að líta út,“ segir Pétur bróðir Snorra og bætir við: „Ég man til dæmis eftir manni sem vildi ekki hvítkálshausinn hjá pabba því hann var of hvítur. Hann bað því um þann brúna sem hann var vanur að fá, en auðvitað er hvítkál aldrei brúnt á lit nema það sé gamalt,“ segir Pétur og hlær.

Í helgarviðtali Atvinnulífsins heyrum við söguna á bakvið Melabúðina sem hjónin Guðmundur Júlíusson og Katrín Stella Briem keyptu árið 1979. Áður höfðu þau rekið Kjörbúð Vesturbæjar á Melhaga 2 frá árinu 1964.

Stýrimaður frá Sandi og aðalsmær frá Viðey

Guðmundur Júlíusson fæddist árið 1928 á Hellisandi. Þar gekk allt út á sjóinn en þó fór það svo að ekki aðeins Guðmundur leiddist út í verslunarrekstur í Reykjavík, því Jón bróðir hans stofnaði Nóatún.

Upphaflega fluttist Guðmundur til Reykjavíkur til að fara í Stýrimannaskólann.

Á meðan hann var í námi, kynntist hann ungri aðalsmær, hálf bresk en að hluta til alin upp í Viðey. En eins víðar úti um heim.

Unga mærin var lærður tískuhönnuður, Katrín Stella Briem, fædd árið 1935.

„Pabbi fór að sigla með fraktskipinu og fljótlega réði mamma sig á skipið sem þerna. Það skýrir út hvers vegna þau sigldu saman svona víða,“ segir Snorri.

En stöldrum aðeins við.

Því um móðir bræðranna, sem oftast var kölluð Kanda, hefur verið rituð bók.

Bókin Sagan þeirra, sagan mín kom út árið 2014. Um bókina segir meðal annars um æsku Köndu: ,,Í gegnum föðurættina tekur hún þátt í allsnægtalífi bresku yfirstéttarinnar en þess á milli fylgir hún móður sinni heimshorna á milli í rótlausri tilveru og stundum sárri fátækt. Þegar líferni Stellu kemur þeim mæðgum á götuna þarf Kanda að rífa sig upp úr örbirgðinni og hefja nýtt líf."

Sú bók heitir Sagan þeirra, sagan mín og er eftir Guðrúnu Johnson. 

Þar er rakin saga þriggja ættliða: Ömmu Köndu sem hét Katrín Thorsteinsdóttir, móðir Köndu sem hét Stella Briem og saga Köndu sjálfrar.

Í einum ritdómi um bókina segir:

„Saga þessara þriggja kvenna er með eindæmum dramatísk. Skilnaðir, lausaleiksbörn, ríkidæmi, drykkja, eldsvoðar, mannrán, ferðalög, erfiðisvinna, fátækt, sjálfsmorð, heimsstyrjaldir… „

Að skilja söguna sem framundan er um Melabúðina, þarf að setja fortíðina í samhengi.

Því Guðmundur hafði áhuga á að flytja til Suður-Afríku.

En Kanda sá ekkert nema Ísland.

Ekki aðeins elskaði hún náttúruna og allt sem íslenskt var, heldur sá hún fyrir sér að ala upp börn í öryggi og festu á Íslandi. 

Því sjálf hafði hún upplifað margt í æsku sem reyndi á. Ekki síst rótleysi.

Árið 1964 stofnuðu Guðmundur og Kanda Kjörbúðina Melhaga 2. Stuttu frá var Melabúðin, en hún opnaði árið 1956. Guðmundur og Kanda keyptu Melabúðina árið 1979 og er hún í dag rekin af sonum þeirra. Vísir/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Ísland er land þitt

Kanda fékk Guðmund því til að samþykkja að festa rætur á Íslandi.

Þar fór Guðmundur fljótlega að vinna í nýlenduvöruverslun á Laugarásvegi 1.

Á þessum tíma var afgreitt yfir borðið og fólk fór í mjólkurbúðina, kjötbúðina og nýlenduvöruverslunina. Þetta voru allt sitthvor búðin,“ 

segir Pétur.

Hjónin bjuggu í Ljósheimum og svo á Laugarásvegi. 

Þar ólu þau upp synina þrjá, sem  allir hafa starfað í búðinni: Friðrik, fæddur 1960, Pétur, fæddur 1963 og Snorri, fæddur 1970.

Árið 1964 stofnuðu Guðmundur og Kanda Kjörbúð Vesturbæjar á Melhaga 2.

„Ég man að kjötborðið og meðal annars kæfan okkar varð strax landsfræg þar,“ segir Pétur og bendir á að enn sé sama kæfan unnin í Melabúðinni.

Síríuslengja og lakkrís

Bræðurnir muna vel eftir búðinni á Melhaga. 

Og mörgu starfsfólki sem þar vann. 

Margir muna eftir Hönnu, sem starfaði hjá Guðmundi í áratugi. Fyrst á Melhaga en síðar í Melabúðinni.

Ekki síst Hönnu Björk Baldvinsdóttur sem starfaði hjá Guðmundi í áratugi, fyrst á Melhaga en síðar í Melabúðinni. 

Þar  starfaði Hanna þar til hún komst á aldur. 

„Margir héldu að hún væri mamma okkar því þegar að við kölluðum Hanna, héldu margir að við værum að segja „Mamma,“ segir Pétur hlæjandi og rifjar upp: „Ég sat á frystikistunni á meðan Hanna afgreiddi og man að stundum gaf hún mér síríuslengju og lakkrís.“

Strax lagði Guðmundur mikla áherslu á vöruúrval og gæði. Ekki síst í kjötborðinu.

Þá voru heimsendingar alsiða.

Ég man eftir sendli sem drakk eina kók í gleri á dag. Sem þá þótti svo svakaleg gosdrykkja að hann var kallaður kókisti,“ 

segir Pétur og hlær.

Þegar Melabúðin opnaði árið 1956 var gefinn út leiðbeiningabæklingur fyrir viðskiptavini og þar sýnt kort af versluninni. Melabúðin var fyrsta búðin í Reykjavík sem fékk leyfi til að selja mjólk, kjöt, fisk og nýlenduvörur í sömu húsakynnum.

„Miðstöð þeirra sem á Melunum búa“

Árið 1979 kaupa hjónin Melabúðina en hún hafði þá verið starfrækt frá árinu 1956.

Þegar Melabúðin opnaði mættu blaðamenn á staðinn.

Því Melabúðin var ekki aðeins fyrsta verslunin í Reykjavík til að fá leyfi til að selja kjöt, nýlenduvarning og fisk í sömu húsakynnum, heldur var hún einnig sjálfsafgreiðslubúð.

Í frétt Morgunblaðsins frá opnun Melabúðarinnar segir:

„Vörur eru þannig staðsettar í hillum og áfrístandandi borðum, að viðskiptavinir geta handleikið þær, virt þær fyrir sér og athugað verð og valið síðan eða hafnað.

Viðskiptavinir safna vörunum saman í körfur eða vagna, sem teknir eru þegar komið er inn í verzlunina og greiða þær við sérstök afgreiðsluborð þegar farið er út.“

Fyrir viðskiptavini var prentaður leiðbeiningar bæklingur með korti af búðinni, en kjörorð Melabúðarinnar var: „Miðstöð þeirra sem á Melunum búa.“

Pétur Thomsen ljósmyndari tók þessa mynd í Melabúðinni þann 8.september árið 1956.

Önnur kynslóðin: Synirnir

Frá því að vera litlir peyjar, voru synirnir þrír vanir að hjálpa til í búðinni. Og það hafa börnin þeirra gert líka.

Pabbi var mikill laxveiðimaður og seldi aflann auðvitað í búðinni. Við fórum snemma að fara með í veiðina og síðan seldum við radísur, kartöflur og fleira sem við bræðurnir ræktuðum í Skólagörðunum,“ 

segir Snorri og hlær.

„Maður ólst upp við þetta og smátt og smátt gerði maður meira. Var að fylla í hillurnar, pakka rúsínum og sveskjum í poka, vigta og fleira“ segir Pétur.

Tólf til þrettán ára töldust bræðurnir nógu stórir til að afgreiða á kassa.

„Og þegar að maður fékk bílprófið fór maður að keyra út heimsendingarnar,“ segir Snorri.

Á fullorðinsárum hafa bræðurnir allir komið að rekstrinum. Þar af Friðrik í um sextán ár. 

Í dag eru Pétur og Snorri eigendur, en Snorri starfar daglega í hátæknifyrirtækinu Star-Oddi. Samhliða sinnir hann ýmsum verkefnum fyrir Melabúðina.

„Málefni sem ekki er unnt að vinna í erli dagsins og þurfa meiri yfirlegu. Það léttir á Pétri í leiðinni“ segir Snorri.

Kanda og Guðmundur með synina: Elstur er Friðrik, síðan Pétur og yngstur er Snorri.

Í þá gömlu góðu daga

„Í stóra mjólkurverkfallinu keyrði ég á Selfoss daglega því þar máttum við kaupa mjólk af aðila sem var í kaupmannasamtökunum Þín verslun. Eitt sinn þurfti ég að fara Bláfjallaleiðina til baka því verkfallsverðir voru alls staðar að reyna að stöðva mann,“ segir Pétur og lýsir atburðarrásinni eins og í spennusögu.

Guðmundur við kjötvinnsluna en kjötborðið og kjötvinnslan var honum alltaf mjög mikið metnaðarmál. Þá áherslu segja bræðurnir enn gilda í Melabúðinni.

„Pabba fannst reyndar alltaf gaman í verkföllum því þá þurfti að kalla alla út í fjölskyldunni til að vinna. Því fylgdi þras við verkfallsverði en karlinum fannst þetta nú ekkert leiðinlegt“ segir Snorri og hlær.

Sem þó má teljast skondið því Guðmundur var sonur Júlíusar Alexanders Þórarinssonar verkalýðsforingja frá Hellisandi.

Margt hefur breyst en sumt minnir á gamla daga. 

Ekki síst Coco Puffs málið síðustu daga.

Þegar að fólk hefur hreinlega hringt í angist til að athuga með pakka.

En þetta er ekki í eina skiptið sem eftirspurnin eftir Coco Puffs er langt umfram framboði.

Verslanir pöntuðu Cocoa Puffs og Cheerios og staðgreiddu mánuðum fyrirfram. 

Því þetta voru lúxusvörur sem, komu sjaldan og fengu þá færri en vildu,“ 

segir Pétur.

„Ég man líka eftir klósettpappírnum með rósailminum og var kallaður leikhúspappírinn,“ segir Snorri sem dæmi um aðra lúxusvöru sem var til í þá gömlu góðu daga.

Enn í dag er margt sér innflutt af Melabúðinni sjálfri, sem ekki fæst annars staðar.

Bræðurnir Snorri og Pétur eiga Melabúðina í dag. Æskuna muna þeir ekki öðruvísi en að vera að hjálpa til; fylla vörur, vigta eða hjóla heim til viðskiptavina með vörur.Vísir/Vilhelm

Óvenjulegar breytingar

Á föst við Melabúðina er stór íbúðarblokk. 

Á 2.hæð í þeirri blokk bjó ung kona sem starfaði áður í Melabúðinni.

Bræðurnir keyptu af henni íbúðina, opnuðu á milli og því er skrifstofa og kaffistofa Melabúðarinnar í dag inni í íbúðarblokkinni.

Árið 2013 gerðist hið óvænta.

Það var viðskiptavinur að koma til okkar til að kaupa okkar landsfræga Melabúðarkjúkling. En það fór nú ekki betur en svo að hann keyrði alla leið inn í búðina! 

Þetta gerði það að verkum að við gátum keypt stóran goskæli því bíllinn gerði svo stórt gat á vegginn. 

Fram að þeim tíma gátum við aldrei keypt stóran kæli því hann komst ekki inn í búðina,“ 

segir Pétur.

Í meðfylgjandi frétt má sjá myndband úr öryggisvélum sem sýnir þegar bíllinn kemur á fljúgandi ferð inn í búð.

Varkárni er velgengni

Frá árinu 2010 hefur Melabúðin fengið viðurkenningu Creditinfo sem eitt af Framúrskarandi fyrirtækjum landsins. 

Enda segja bræðurnir varkárni hafa einkennt reksturinn alla tíð. 

Aldrei er farið í framkvæmdir nema peningar séu til fyrir þeim. 

Þó mátti litlu muna í bankahruninu.

Við áttum peninga í sjóðum en á laugardagskvöldinu áður en Geir Haarde blessaði Ísland, sat ég sveittur við tölvuna fram á nótt, tók út peningana og greiddi alla reikninga frá heildsölum og birgjum. 

Sem betur fer því annars hefðu peningarnir tapast,“ 

segir Pétur.

Margar þjóðir lokuðu á innkaup frá Íslandi í kjölfar bankahrunsins. Vöruúrvalið breyttist því nokkuð um tíma í Melabúðinni.

„Já allt í einu voru bara komin íslensk kindabjúgu í kjötborðið meðan steikurnar hurfu. ORA grænar baunir og álíka urðu vinsæll hversdagsmatur enda ódýrara en innflutt dýrt grænmeti eins og ástandið var þá,“ segja bræðurnir.

Í Covid hefur gengið vel. 

Pantanir og heimsendingar eru fleiri en nokkru sinni fyrr og aldrei hefur jafn mikið verið sent með DHL til útlanda eins og fyrir síðustu jól eða nýliðna páska. 

Því margir Íslendingar hafa ekki komist heim vegna Covid.

Hópmynd af starfsfólki Melabúðarinnar sem bræðurnir segja að eigi miklar þakkir skildar. Mannauður Melabúðarinnar hafi alltaf átt stóran þátt í hversu vel hefur gengið.Vísir/Vilhelm

Viðskiptavinirnir og starfsfólkið

Enn er þeim reglum Guðmundar fylgt eftir að viðskiptavinir upplifi stemningu þegar þeir koma í Melabúðina. 

Til dæmis að finna hangikjötslyktina fyrir jólin eða saltkjöts- og baunastemninguna á Sprengidag.

Guðmundur lést árið 2017, en Kanda árið 2018. Fram til dánardags mætti Guðmundur oft í Melabúðina og þá helst á álagstímum.

„Hann vildi spjalla við viðskiptavinina enda kaupmaður af guðs náð,“ segir Pétur

Bræðurnir segja tryggð íbúa í Vesturbænum við Melabúðina engu öðru líkt.

„Viðskiptavinirnir hafa alltaf staðið vörð um búðina,“ segir Snorri og bætir við: „Við erum líka KR-búðin.“

Þá segja þeir mikilvægt að þakka því frábæra starfsfólki sem starfi í Melabúðinni og öllum þeim fjölda sem það hafa gert í gegnum tíðina. Því starfsfólk Melabúðarinnar sé stór hluti af velgengninni.

Pétur segir persónulega þjónustu líka svo gefandi starf:

Ég fékk mynd í tölvupósti af vinkonum sem hittust um síðustu helgi til að horfa á útför Filippusar prins. Við tókum saman fyrir þær pöntun með ýmsum kræsingum í tilefni dagsins. 

Allt breskar vörur auðvitað. 

Og síðan sendu þær mér mynd af hópnum og kræsingunum og það fannst mér gaman.“

Gamla myndin

Hjónin Kanda og Guðmundur á góðri stundu. Bæði voru þau mikið hestafólk, Kanda alla tíð en Guðmundur meira í seinni tíð. Kanda og Guðmundur sigldu ung um heimsins höf á fraktskipi og kynntust matarmörkuðum og ferskvörum. Í þessum sigliningum voru í raun línurnar lagðar fyrir það vöruúrval sem einkennir Melabúðina enn í dag.

Tengdar fréttir

Slógu lán hjá Útvegsbankanum og bankastjórinn hló

„Ég var svo svekkt að geta ekki horft á teiknimyndirnar á laugardagsmorgnum. Því pabbi dró mann á fætur til að kíkja á kaffihúsið,“ segir Sunna Rós Dýrfjörð og skellihlær. 

„Við Dísa ræddum fyrir alvöru hvort að við ættum að hætta“

„Við Dísa ræddum fyrir alvöru hvort að við ættum að hætta í líkamsræktinni og snúa okkur alfarið að skemmtanabransanum. En eftir nokkur ár fattaði ég að skemmtanageirinn er eins og loðnuvertíð, en rekstur líkamsræktarstöðvar mun stöðugri,“ segir Björn Kr. Leifsson um það þegar hann og eiginkona hans, Hafdís Jónsdóttir, tóku ákvörðun um að selja tvo af vinsælustu skemmtistöðum borgarinnar laust eftir síðustu aldamót. Síðan þá hafa hjónin, sem best eru þekkt sem Bjössi og Dísa, einbeitt sér að uppbyggingu World Class og Lauga.

„Ef þið farið að rífast, þá sel ég“

„Mamma sagði strax að við ættum að halda áfram og reka fyrirtækið í minningu pabba. En hún sagði líka við okkur: Ef þið farið að rífast, þá sel ég,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir um það þegar systkinin tóku við rekstri Kjörís í kjölfar þess að faðir þeirra, Hafsteinn Kristinsson, var bráðkvaddur.

Erfitt að fá launahækkun hjá pabbanum

„Árið 1947 brann allt til kaldra kola enda ekki komin vatnsveita í Selás í Reykjavík þá. En það hvarflaði aldrei að pabba að hætta rekstri,“ segir Eyjólfur Axelsson stjórnarformaður AXIS. Faðir Eyjólfs stofnaði fyrirtækið árið 1935 en fyrirtækið er í dag rekið af þriðju kynslóðinni: Þeim Eyjólfi og Gunnari Eyjólfssonum. „Nei ég ætlaði ekkert að fara að vinna hér. Ég er lögfræðingur og starfaði sem slíkur þegar pabbi talaði við okkur systkinin um það hvort eitthvert okkar vildi taka við,“ segir sonurinn Eyjólfur og hlær.

„Afi var alltaf með Malt í gleri og Prince Póló á skrifstofunni“

„Mér fannst þetta alltaf spennandi og sem barni þótti manni líka svo merkilegt ef maður sá frægt fólk. Alþingismennirnir, Hemmi Gunn og forsetinn voru meðal þeirra sem ég man eftir að hafa þótt merkilegt að sjá,“ segir Guðrún Erla Sigurðardóttir og skellihlær. „Já, þeir komu forsetarnir og bílstjórarnir þeirra, það er rétt,“ segir móðir hennar Ágústa Kristín Magnúsdóttir og bætir við: „Ég man til dæmis að Ásgeir Ásgeirsson forseti verslaði við pabba þegar Efnalaugin Björg var á Sólvallagötunni.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.