Körfubolti

Matthías: Ég skammast mín smá fyrir frammistöðuna

Árni Jóhannsson skrifar
Matthías Orri Sigurðarson átti fínan leik en skammaðist sín fyrir frammistöðuna í kvöld.
Matthías Orri Sigurðarson átti fínan leik en skammaðist sín fyrir frammistöðuna í kvöld. Vísir/Bára

KR tapaði fyrir Þór frá Akureyri í spennuþrungnum leik í Dominos deild karla í kvöld 86-90. Leikurinn var partur 16. umferð deildarkeppninnar en KR var með gott forskot eftir fyrsta leikhluta en glutraði leiknum niður þannig að tekið verður eftir. 

Matthías Orri Sigurðsson var skiljanlega ekki upplitsdjarfur eftir leikinn og frammistöðu sinna manna.

„Ég bara skammast mín smá fyrir frammistöðuna í dag“, sagði Matthías þegar hann var spurður hvernig hægt væri að útskýra svona tap.

„Ég skammast mín líka bara fyrir frammistöðuna almennt á heimavelli þennan veturinn. Við vorum andlausir, fyrir utan fyrstu 10 mínúturnar, alveg bara pinkulitlir í okkur og ekki tilbúnir til að berjast eða gera neitt af því sem við ætluðum okkur. Um leið og þeir byrjuðu að lemja á okkur bökkuðum við í burtu og vorum allt of lengi að svara fyrir okkur. Það er ansi margt sem þarf að laga hjá okkur.“

Matthías var síðan spurður út í hvort að einbeitingin hafi horfið eftir að liðið náði 18-1 forskoti í byrjun leiks og að um leið hafi þá sjálfstraustið horfið.

„Sjálfstraustið var ekki farið. Það var bara eins og það hafi gjörsamlega slokknað á okkur. Þeir skoruðu 13 stig á okkur í fyrsta leikhluta en síðan í öðrum þá skora þeir yfir 30. Við hleyptum þeim inn í þetta og fengum ótal sénsa til að taka þetta til baka. Náðum þeim aðeins aftur í fjórða leikhluta en svo bara slokknaði aftur á okkur. Svo í seinasta leikhlutanum þá vorum við að klikka á galopnum skotum. Ég bara man ekki eftir leik þar sem við klikkuðum á svona mörgum galopnum þristum. Við klikkuðum ítrekað og það er einhver einbeitingarvandi. Ég hef lítið um svör núna“, sagði Matthías mjög hugsi um hvað hefði gerst hjá sínum mönnum.

Að lokum var hann spurður að því hvort það væri kostur að það væri stutt í næsta leik.

„Já það er mjög fínt. Við þurfum að ná þessum leik aftur til baka og við þurfum að vinna í ansi mörgum hlutum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×