Innlent

Sóttvarnarlög brotin á veitingastað í Kópavogi

Kjartan Kjartansson skrifar
Sem fyrr var í mörg horn að líta hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt.
Sem fyrr var í mörg horn að líta hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglumenn höfðu afskipti af veitingastað í Kópavogi vegna brota á lögum um sóttvarnir og veitingahús í nótt. Forráðamenn staðarins virtu ekki reglur um lokunartíma og þá var lítið um sóttvarnir á staðnum.

Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir einnig frá tveimur mönnum sem voru stöðvaðir í bifreið vegna gruns um ölvunarakstur í póstnúmeri 108 í Reykjavík skömmu fyrir klukkan eitt í nótt. Lögregluþjóna grunaði að mennirnir hefðu haft sætaskipti eftir að þeir stöðvuðu bílinn.

Þá liggur fyrir grunur um að sá sem ók bílnum hafi gert það án ökuréttinda. Hann sagði lögreglu ekki til nafns og er talinn hafa gefið rangar yfirlýsingar. Báðir menn voru vistaðir í fangageymslu lögreglunnar vegna rannsóknar málsins í nótt.

Tvö hjólaslys urðu í gærkvöldi. Rétt fyrir klukkan sex í gærkvöldi steyptist maður á reiðhjóli fram fyrir sig og skall í götuna í Hafnarfirði. Hann hlaut áverka á höfði og öxl og var fluttur með sjúkrabifreið á bráðdeild.

Klukkan tíu mínútur yfir átta í gærkvöldi féll karlmaður af rafhjóli þegar hann hjólaði á kantstein í Hlíðahverfi. Hann hlaut áverka á andliti, brotna tönn og fleiri meiðsli. Hann var fluttur á bráðadeild til aðhlynningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×