Atvinnulíf

Vill hafa meira gaman og minna leiðinlegt

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Guðný Helga Herbertsdóttir.
Guðný Helga Herbertsdóttir. Vísir/Vilhelm

Þegar Guðný Helga Herbertsdóttir, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá VÍS, varð fertug setti hún sér það markmið að hafa meira gaman en minna leiðinlegt. Þetta markmið hefur gefist vel, ekki síst á tímum Covid. Guðný Helga segist vera svo mikil lista-kona í skipulagi að oft geri fjölskyldan grín að. Þá segist hún hafa lært margt af netinu, til dæmis lærði hún að prjóna af YouTube.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Heimir, Gulli og Þráinn vekja mig alltaf um klukkan sjö.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Ég vildi að ég gæti sagt að ég færi í ræktina eða gerði eitthvað meiriháttar uppbyggilegt fyrir vinnu. Það fyrsta sem ég geri hins vegar er að lesa yfir tölvupóstana mína, skanna fréttamiðlana og skoða dagskrá dagsins. 

Minn tími hefur svo aðallega verið í bílnum á leið í vinnu en þá hlusta á ég á hljóðbók eða hlaðvarp.“

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir í frístundum?

„Ég á mörg áhugamál og það er alltaf að bætast á þann lista. Þegar ég varð fertug þá setti ég mér það markmið að hafa meira gaman og minna leiðinlegt. Hef staðið ótrúlega vel við það markmið þrátt fyrir almenn Covid-leiðindi síðasta árið. 

Ég á það til að sökkva mér í ákveðin mál og ég hef til að mynda lært ýmislegt af Youtube, eins og að prjóna.

Mér finnst líka meiriháttar gaman að elda og leika mér úti, til að mynda á skíðum eða spila golf. Ástríða mín samt númer eitt er stangveiði og ég nýt mín hvergi betur en við þá iðju. Ég nýti líka hvert tækifæri til að fara í sumarbústaðinn okkar en mér líður alltaf best í sveitinni.“

Uppahaldsáhugamál Guðnýjar Helgu er stangveiði og eins nýtir hún hvert tækifæri sem gefst til að fara upp í sumarbústað.Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Þrátt fyrir fjölbreyttar áskoranir vegna alheimsfaraldursins, þá flýtti hann fyrir stafrænni þróun víða í samfélaginu. Líka hjá okkur í VÍS. 

Við höfum á síðustu þremur árum sett í loftið fjölmargar nýjar stafrænar lausnir og geta viðskiptavinir okkar nú tilkynnt öll tjón og fengið úrlausn nær samstundis á algengustu tjónunum, komið í viðskipti og nálgast allar helstu upplýsingar á VÍS.is.

Við erum á þessari vegferð og kynnum reglulega nýjungar á þessu sviði. Sú næsta er handan við hornið en það er algjörlega ný leið í tryggingum hér á landi sem við höfum fulla trú á að falli í góðan jarðveg hjá viðskiptavinum okkar.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Ég er almennt mjög skipulögð í þeim verkefnum sem ég tek mér fyrir hendur, hvort sem það snýr að vinnu eða einkalífinu. Tímalistarnir mínir fyrir jólin og matseldina á aðfangadag hafa til að mynda verið mikið aðhlátursefni í fjölskyldunni!

Ég vinn mikið með to-do lista og tímalínur fyrir verkefni sem eru í gangi. Ég legg mikið upp úr góðu upplýsingaflæði og opinna samskipta í teyminu mínu.

Síðustu mánuði hef ég endað hverja vinnuviku á því að fara yfir sigra vikunnar með stjórnendum á sviðinu sem ég stýri. Það bæði hjálpar mér að halda utan um þann árangur sem við erum að ná en sendir líka alla vel inn í helgina. Mæli klárlega með þessu!“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Ég í eðli mínu frekar mikil B manneskja og fæ oft bestu hugmyndirnar mínar þegar aðrir heimilismeðlimir eru farnir að sofa. 

Ef ég hef átt þannig kvöld nýti ég líka morguninn í að fara yfir hvort hugmyndin hafi verið snilld eða algjört bull! Það er nefnilega oft þunn lína þar á milli. Þetta kvöldbrölt mitt verður til þess að ég fer yfirleitt alltof seint að sofa og það er alls ekki til eftirbreytni.“


Tengdar fréttir

Endar iðulega í viðtölum við áhugavert fólk

Tinni Jóhannesson ráðningastjóri og ráðgjafi hjá Góðum samskiptum finnst gott að taka daginn snemma en það er þriggja mánaða dóttirin sem stýrir því einna helst, hvenær hann fer síðan að sofa á kvöldin. Honum finnst best að nota morgnana eða síðdegin til að skipuleggja verkefni í vinnunni en lýsir í kaffispjallinu hvernig honum fyndist fullkomin helgi vera, nú á tímum Covid.

Kisurnar „sofa annað hvort ofan á mér eða límdar upp við mig“

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, byrjar daginn á því að klappa kisunum sínum. Hún segir eiginmanninn sofa í gegnum fyrri hluta morgunrútínunnar en vakna við ófriðinn þegar hún fer að hafa sig til. Svanhildur segist mikil listakona í skipulagi og á það til að detta í einhver ofurgír á kvöldin.  

„Koddahugmyndirnar“ í rúminu misgóðar daginn eftir

Guðmundur Pálsson framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar/TBWA, segist oftast fljótur að sofna á kvöldin. Stundum poppa þó upp svo góðar hugmyndir fyrir viðskiptavini að hann glaðvaknar. Þessar „koddahugmyndir“ reynast þó misgóðar daginn eftir þegar mætt er til vinnu. Í golfinu vinnur Guðmundur markvisst af því að ná forgjöfinni niður fyrir tíu.

100 konur á „Kvenndalshnúk“ í maí

Snjódrífurnar vöktu athygli landsmanna þegar þær gengu Vatnajökul í fyrra og söfnuðu pening fyrir Líf og kraft. Í vor stefna 100 konur á Hvanndalshnúk, eða „Kvenndalshnúk“ eins og hann er kallaður af hópnum þar sem aftur verður safnað til góðgerðarmála.

Átakanlegar stundir fylgja starfinu í Farsóttarhúsinu

Síðustu vikur höfum við séð Gylfa Þór Þórsteinsson reglulega í fréttum, enda sinnir hann nú því starfi að vera umsjónarmaður Farsóttarhúsa. Gylfi segist í raun aldrei vita hvað bíður hans í vinnunni. Starfið er samt gefandi og í raun það skemmtilegasta sem Gylfi hefur sinnt til þessa. Hins vegar fylgja því einnig átakanlegar stundir. Til dæmis þegar hann þurfti að fylgja konu að kveðja unnusta sinn í síðasta sinn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×