Viðskipti innlent

Um fimmti hver Reyk­víkingur notar raf­hlaupa­hjól

Atli Ísleifsson skrifar
Samkvæmt könnuninni er notkunin mest í aldurshópnum 18 til 24 ára.
Samkvæmt könnuninni er notkunin mest í aldurshópnum 18 til 24 ára. Vísir/Vilhelm

Tæplega nítján prósent Reykvíkinga nota rafhlaupahjól eitthvað og tæp sex prósent nota þau einu sinni í viku eða oftar. Notkunin er mest í aldurshópnum 18 til 24 ára og virkustu notendurnir eru búsettir í Háaleiti/Bústöðum.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun Gallup fyrir Reykjavíkurborg.

Á vef borgarinnar segir að algengast sé að notendur rafhlaupahjóla noti þau í að ferðast til og frá vinnu og komi þau því í stað einkabíla í ákveðnum ferðum.

„Rafhlaupahjólin eru að sýna sig sem alvöru valkostur í samgöngum en 43,5% þeirra sem nota rafhlaupahjól fara færri ferðir með einkabíl en áður skv. könnuninni. Fólk notar því hjólin í meira en frístundaferðir, þó einnig sé vinsælt að nota þau í ferðir til og frá veitingastöðum, til vina og ættingja og einnig til útréttinga.

Nokkrir punktar úr niðurstöðunum:

  • Tæplega 19% Reykvíkinga notar rafhlaupahjól eitthvað. Tæp 6% nota þau einu sinni í viku eða oftar, 5,3% einu til þrisvar sinnum í mánuði og 7,6% nota hjólin sjaldnar en einu sinni í mánuði. Samtals nota rúmlega 11% rafhlaupahjól einu sinni í mánuði eða oftar.
  • Hlutfallslega flestir úr aldurshópnum 25-34 ára nota rafhlaupahjólin eitthvað. Notkunin er hins vegar mest hjá 18-24 ára en 15% aldurhópsins nota þau einu sinni í viku eða oftar.
  • Notendur eru flestir í Miðborg/Vesturbæ og Hlíðum/Laugardal en virkustu notendurnir eru í Háleiti/Bústöðum.
  • 11,9% segja að það sé rafhlaupahjól á heimilinu og eru það hlutfall hæst í Háaleiti/Bústöðum og í Hlíðum/Laugardal. Tveir af hverjum þremur af þeim sem nota hlaupahjól einu sinni í viku eða oftar búa á heimili þar sem er rafhlaupahjól.
  • Helmingur hefði farið gangandi í síðustu ferðina sem þeir fóru á hlaupahjóli, ríflega fjórðungur hefði farið á einkabíl, 14% með Strætó og ríflega 7% hjólandi.
  • Algengast er að notendur rafhlaupahjóla noti það í að ferðast til og frá vinnu en næst algengast er að nota það til/frá skemmtistöðum sem er algengara meðal þeirra sem nota hjólin sjaldnar en einu sinni í mánuði.
  • Tæplega 29% hafa leigt rafhlaupahjól en naumlega 59% hafa heyrt um þjónustuna en ekki leigt. Tæp 13% hafa ekki heyrt um þjónustuna. Ríflega helmingur Reykvíkinga 18-34 ára hefur leigt hlaupahjól.

Könnunin var gerð af Gallup fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar á tímabilinu 18. nóvember til 14. desember 2020. Könnunin var send á samtals 2700 Reykvíkinga 18 ára og eldri í nokkrum spurningavögnum sem skilaði rúmlega 1400 svörum,“ segir í fréttinni.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×