„Já, það er rétt,“ segir Berglind Hallgrímsdóttir sem rekið hefur Café Bleu ásamt Einari Val Einarssyni undanfarin þrettán ár.
„Við erum hætt og það koma nýir aðilar.“
Staðnum var lokað um áramótin en Berglind segir ekki hennar að greina frá því hvaða veitingarekstur taki við í rýminu. Þau sjái á eftir mörgum viðskiptavininum.
„Við erum búin að eiga rosalega marga fastakúnna í gegnum tíðina og það er sárt að sjá á eftir þeim. En það er bara kominn tími á nýtt.“
Café Bleu var upphaflega opnaður í október 1999 og lagt mikið upp úr þjónustu við gesti Borgarleikhússins sem gátu keypt í einum pakka leikhúsmiða og máltíð á Café Bleu. Veitingastaðurinn ætlaði sér að bjóða upp á vín á lægra verði.
„Við ætlum að skera upp herör gegn þessari miklu álagningu sem hefur verið á víni á íslenskum veitingastöðum,“ sagði Gísli Jensson, veitingamaður og einn framkvæmdastjóra Café Bleu, við opnunina árið 1999.
Berglind og Einar Valur tóku svo við rekstrinum árið 2007.