Handbolti

Strákarnir hans Alfreðs hituðu upp fyrir HM með stórsigri í Austurríki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þýskaland hefur unnið alla þrjá leiki sína undir stjórn Alfreðs Gíslasonar.
Þýskaland hefur unnið alla þrjá leiki sína undir stjórn Alfreðs Gíslasonar. getty/Markus Tobisch

Þýska karlalandsliðið í handbolta átti ekki í miklum vandræðum með að leggja það austurríska að velli, 27-36, í Graz í undankeppni EM 2022 í dag.

Strákarnir hans Alfreðs Gíslasonar skoruðu hvorki fleiri né færri en 22 mörk í fyrri hálfleik og voru sex mörkum yfir að honum loknum, 16-22.

Leikurinn róaðist talsvert í seinni hálfleik og mörkunum fækkaði en þýska liðið var áfram með yfirhöndina.

Þjóðverjar unnu á endanum níu marka sigur, 27-36, og hafa unnið alla þrjá leiki sína í riðli 2 með samtals 25 marka mun.

Marcel Schiller var markahæstur í þýska liðinu með ellefu mörk úr ellefu skotum. Julius Kühn og Johannes Golla skoruðu fjögur mörk hvor.

Sterka leikmenn á borð við Nikola Bilyk, Janko Bozovic og Alexander Hermann vantar í austurríska liðið sem átti erfitt uppdráttar í leiknum í dag.

Þýskaland og Austurríki mætast öðru sinni í Köln á sunnudaginn. Liðin halda svo til Egyptalands þar sem heimsmeistaramótið fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×