Viðskipti innlent

Regnhlífarlög sett um fjármálamarkað

Í skýrslunni, sem er rúmar hundrað blaðsíður, er farið yfir orsakir þess ástands sem hér skapaðist fyrir hrun og í hruninu, og hvaða leiðir eru færar til að koma í veg fyrir það.
Í skýrslunni, sem er rúmar hundrað blaðsíður, er farið yfir orsakir þess ástands sem hér skapaðist fyrir hrun og í hruninu, og hvaða leiðir eru færar til að koma í veg fyrir það. Fréttablaðið/vilhelm
Stöðugleikaráð skipað æðstu mönnum, með víðtækar heimildir til gagnaöflunar og inngripa, er meðal hugmynda sem settar eru fram í nýrri skýrslu um framtíð íslensks fjármálakerfis. Von er á frumvörpum til lagabreytinga á haustþingi.

Frumvarp að eins konar regnhlífarlögum fyrir alla fjármálastarfsemi landsins verður lagt fram á þingi í haust, ef hugmyndir sem settar eru fram í nýrri skýrslu um framtíðarskipan fjármálakerfisins verða að veruleika.

Tilgangurinn með slíkri rammalöggjöf væri að samþætta reglur um banka, verðbréfafyrirtæki, lífeyrissjóði og opinbera lánasjóði á borð við Íbúðalánasjóð, og tryggja þannig að í grundvallaratriðum gildi sambærilegar reglur um alla þá starfsemi, og jafnframt að kveða með skýrum hætti á um verkaskiptingu opinberra stofnana og hvar ábyrgðin liggur á eftirliti með stöðugleika fjármálakerfisins í heild sinni.

Hluti af slíkri löggjöf væri sérstakt stöðugleikaráð undir forystu efnahags- og viðskiptaráðherra.

Fyrirmyndin að því yrði samráðshópur Seðlabankans um fjármálastöðugleika, sem starfaði árin fyrir hrun, en stöðugleikaráðið hefði þó mun víðtækari heimildir til upplýsingaöflunar og inngripa.

Hugmyndin sem sett er fram í skýrslunni er að í ráðinu sætu einnig fjármála- og velferðarráðherra, Seðlabankastjóri og forstjórar Fjármála- og Samkeppniseftirlits.

Árni Páll Árnason, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, setti vinnu við skýrsluna af stað í fyrrahaust og núverandi ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, kynnti hana til sögunnar í gær.

Á fundinum áréttaði Steingrímur að í skýrslunni væri ekki að finna beinar tillögur heldur fremur hugmyndir að leiðum sem hægt væri að fara til að koma í veg fyrir að sams konar ástand skapaðist aftur á íslenskum fjármálamarkaði og það sem leiddi til hrunsins 2008.

„Það verður ekki undan því vikist að taka þetta allt til endurskoðunar," sagði Steingrímur á fundinum í gær.

Steingrímur hefur þess vegna skipað sérfræðingahóp sem ætlað er að fara yfir skýrsluna og skila tillögum um breytingar á lagaumgjörð fjármálamarkaðarins fyrir haustið.

Í hópnum sitja Jón Sigurðsson, fyrrverandi stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, sem einnig hafði veg og vanda af skýrslugerðinni, Gavin Bingham, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá BIS-bankanum í Basel, og Kaarlo Jännäri, fyrrverandi forstjóri finnska fjármálaeftirlitsins.

Jafnframt kom fram í máli Steingríms að meðal þess sem yrði skoðað sérstaklega væri aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingarbankaþjónustu, sem flest rök hnigu að, og staða innistæðutryggingakerfisins.stigur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×