Viðskipti innlent

Landsbankinn fellir niður lán stofnfjáreigenda

Landsbankinn eignaðist umrædd lán við yfirtökuna á SpKef í vor.
Landsbankinn eignaðist umrædd lán við yfirtökuna á SpKef í vor. Fréttablaðið/GVA
Landsbankinn mun fella niður flest þau lán sem veitt voru til ríflega 500 einstaklinga og 30 lögaðila við stofnfjáraukningu í Sparisjóðnum í Keflavík, Sparisjóði Húnaþings og Stranda og Sparisjóði Vestfirðinga árið 2007.

Þetta gerir bankinn í kjölfar nýlegs dóms Hæstaréttar þar sem stofnfjáreigendur í Byr sparisjóði og Sparisjóði Norðlendinga voru sýknaðir af innheimtukröfum vegna sambærilegra lána.

Landsbankinn eignaðist lánin við yfirtökuna á SpKef í mars en Sparisjóðirnir þrír sameinuðust undir merkjum SpKef árið 2008.

Dómur Hæstaréttar byggði á því mati að stofnfjáreigendum hefði verið veitt villandi ráðgjöf við lánveitinguna. Í fréttatilkynningu frá Landsbankanum segir að í þessari ákvörðun felist viðurkenning á því að ráðgjöf til kaupenda hafi af hálfu viðkomandi sparisjóða verið ýmist röng eða ófullnægjandi.

Landsbankinn mun eins og áður sagði fella flest lánin niður. Þetta á þó ekki við um lán þar sem stofnfjárbréf hafa verið seld en andvirðinu ekki ráðstafað til greiðslu lánsins eins og samið var um.

Landsbankinn gat í gær ekki gefið upp heildarupphæð lánanna þar sem ekki sé búið að klára vinnu við að yfirfara lánin. Líklegt má þó telja að þetta hafi samtals verið lán upp á hundruð milljóna hið minnsta og jafnvel vel það.

„Aðalatriðið er að þarna er um að ræða fólk sem fékk vonda ráðgjöf og lenti í algjörum forarpytti. Þetta fólk er að losna undan þessum byrðum sem hafa verið mörgum mjög þungbærar,“ segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans.

- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×