Viðskipti innlent

OR og Mitsubishi í samstarf á heimsvísu

Þeir Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður OR, Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri, og Ichiro Fukue, aðstoðarforstjóri MHI, undirrituðu yfirlýsinguna.
Þeir Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður OR, Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri, og Ichiro Fukue, aðstoðarforstjóri MHI, undirrituðu yfirlýsinguna.
Fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Mitsubishi Heavy Industries (MHI) undirrituðu í dag í sendiráði Íslands í Tókýó viljayfirlýsingu um samstarf fyrirtækjanna tveggja við jarðhitanýtingu á heimsvísu og innleiðingu visthæfra orkugjafa í samgöngum hér á landi.

Í tilkynningu segir að þeir Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður OR, Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri, og Ichiro Fukue, aðstoðarforstjóri MHI, undirrituðu yfirlýsinguna.

Samstarf OR og MHI á sér tveggja áratuga sögu, til þess að Japanirnir tóku að sér smíði aflvéla Nesjavallavirkjunar. MHI varð einnig hlutskarpast í útboði á smíðum véla fyrir Hellisheiðarvirkjun og á síðustu misserum hefur samstarfið einnig þróast yfir á svið visthæfra samgangna. Hafa fulltrúar MHI m.a. komið hingað til lands til að kynna hugmyndir fyrirtækisins um rafbílavæðingu og framleiðslu gervieldsneytisins DME með jarðhita. Þá á Mitsubishi í formlegu samstarfi við iðnaðarráðuneytið um visthæfar samgöngur.

OR á aðild að erlendum jarðhitaverkefnum og mun nú fá MHI til liðs við sig til að þróa þau frekar. Mikil eftirspurn er eftir umhverfisvænni orku og þekkingu á þróun hennar. OR leggja til samstarfsins þekkingu starfsfólks fyrirtækisins og tengsl við önnur fyrirtæki hér á landi á sviði jarðhitanýtingar. Má þar nefna Íslenskar orkurannsóknir, Jarðboranir, verkfræðistofurnar Mannvit, Eflu og Verkís og arkitektastofunar T.ark og Landslag. OR hefur unnið með öllum þessum aðilum, auk MHI, við byggingu virkjana sinna.

Samstarfið mun miða að því að finna tækifæri til nýtingar jarðhita, rannsóknum á auðlindum og mati á afkastagetu þeirra, ráðgjöf við byggingu, útvegun búnaðar og ráðgjafar byggðri á áratugalangri farsælli reynslu OR af rekstri jarðvarmavirkjana.

OR hefur rekið rafbíla í tilraunaskyni allt frá árinu 1998. Á næstu vikum mun móðurfélag MHI, Mitsubishi Corporation, senda hingað til lands tvo rafbíla af gerðinni iMiEV og verða þeir nýttir hér á landi til að þróa frekar hugmyndir og aðferðir um upptöku vithæfrar orku í samgöngum. Þá miðar viljayfirlýsingin einnig að því að nýta orku og útblástur jarðgufuvirkjana til framleiðslu á visthæfu eldsneyti, sem nýta má á hefðbundnar bílvélar. MHI hefur tekið þátt í þróun aðferða við framleiðslu DME (dímetýl eter) og hyggur nú á samstarf við OR í sama skyni.

OR hefur frá mars 2009 átt í góðu samstarfi við sendiráð Íslands í Tókýó varðandi undirbúning þessarar viljayfirlýsingar. Þá áttu forsvarsmenn OR fundi með ýmsum fulltrúum japanskra stjórnvalda og japanskra fyrirtækja, þ.á.m. MHI. Framhald varð á fundum OR og MHI í tengslum við ráðstefnuna Driving Sustainability síðastliðið haust, þegar Ichiro Fukue kom hingað til lands og kynnti hugmyndir fyrirtækisins um innleiðingu visthæfra orkugjafa í samgöngum.

Viljayfirlýsingin var rædd á tveimur fundum stjórnar OR og samþykkt einróma af stjórn 26. mars sl. Undanfarna daga hefur sendiráð Íslands skipulagt fundi fulltrúa OR í Tókýó með stjórnmálamönnum úr ríkisstjórn Japans, embættismönnum úr iðnaðarráðuneytinu, stjórnendum stærsta þróunarbanka Japans, fulltrúum stærsta orkufyrirtækisins, formanni samtaka orkufyrirtækja og þekktum sérfræðingum á sviði jarðvarma.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×