Sport

Metfjöldi í Reykjavíkur-maraþoni

Sarah Knudson frá Kanada fagnar hér sigri í maraþoni kvenna.
Sarah Knudson frá Kanada fagnar hér sigri í maraþoni kvenna. MYND/Hörður

íþróttir Keníamaðurinn Simon Tonui og Sarah Kathryn Knudson frá Kanada unnu 24. Reykjavíkurmaraþonið sem fram fór í gær. Þátttökumetið var slegið með glæsibrag en rúmlega ellefu þúsund manns hlupu í maraþonið, hálfa maraþonið, 10 km hlaupið eða tóku þátt í skemmtiskokkinu í frábæru veðri í gær.

Stemningin var mjög góð í kringum hlaupið í gær, veðrið var mjög gott og hlaupararnir voru hvattir áfram af fullt af áhorfendum sem létu vel í sér heyra á hlaupaleiðinni. Í hlaupinu í fyrra hlupu rúmlega 10.000 manns þannig að þátttakendunum fjölgaði um rúmlega 10 prósent sem er ánægjulegt. Alls skráðu 11.408 manns sig til þátttöku. 574 hlauparar spreyttu sig á maraþoni, 1.628 hlupu hálfa þá vegalengd og 2.971 hljóp tíu kílómetra.

Keníamenn voru sigursælir í karlaflokki því Simon Tonui kom fyrstur í mark í heilu maraþoni eftir nákvæmlega tvo tíma og 24 mínútur og landi hans, Joseph Mbithi, kom annar í mark á tímanum 2:24:23. Þriðji varð Jiri Wallenfels frá Tékklandi á 2:36:39.

Sarah Kathryn Knudson frá Kanada vann maraþonið hjá konum en hún hljóp á þremur tímum, 21 mínútu og 19 sekúndum. Finnsku mæðgurnar Tuula og Sari Yrjölä komu síðan jafnar í mark í 2. til 3. sæti en þær hlupu á 03:22:32 klukkutímum og voru einni mínútu og 13 sekúndum á eftir sigurvegaranum. Stefán Viðar Sigtryggsson var fyrstur íslenskra karla og Björg Árnadóttir kom fyrst í mark af íslenskum konum.

Í hálfmaraþoni var Ólympíumeistarinn frá Aþenu 2004 mættur til leiks, Stefano Baldini frá Ítalíu, en hann náði ekki gullinu á Íslandi og kom annar í mark á eftir Keníabúanum Benjamin Serem sem hljóp á einum tíma, 4 sekúndum og 9 sekúndum og var 59 sekúndum á undan Ítalanum. Næstu menn voru síðan Keníabúarnir John Mutai Kipyator og Zachary Kihara.

Cathy Mutwa frá Kenía vann öruggan sigur í hálfu maraþoni kvenna en í öðru sæti varð Nadine Gill frá Bandaríkjunum. Stefán Guðmundsson kom fyrstur Íslendinga í mark í hálfu maraþoni karla en Rannveig Oddsdóttir varð fyrst íslenskra kvenna og endaði auk þess í þriðja sæti í hálfu maraþoni kvenna.

Kári Steinn Karlsson og Nikki Archer unnu 10 km hlaup karla og kvenna en Íris Anna Skúladóttir varð í öðru sæti hjá konunum. Kári hljóp á sléttri 31 mínútu en Björn Margeirsson var annar, 1 mínútu og 38 sekúndum á eftir Kára Steini. Archer hljóp á 35 mínútum og 37 sekúndum en Íris Anna kom í mark á 37 mínútum og 37 sekúndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×