Viðskipti innlent

Raungengi krónunnar hækkar hægt og sígandi

Raungengi íslensku krónunnar heldur áfram að hækka hægt og sígandi. Í nóvember hækkaði það um 0,4% í nóvember síðastliðnum á mælikvarða hlutfallslegs verðlags. Þessi þróun er í samræmi þróunina á nafngengi krónunnar á sama tímabili, sem og verðlags.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þannig var nafngengi krónunnar 0,5% hærra í nóvember en í október m.v. vísitölu meðalgengis. Á sama tíma stóð vísitala neysluverð nánast í stað en hún hækkaði um einungis 0,05% í nóvember frá fyrri mánuði og var verðbólgan hér á landi þar með minni en hún var í okkar helstu nágrannalöndum. Þetta kemur fram í tölum sem Seðlabanki Íslands birti fyrr í vikunni

Frá áramótum talið hefur raungengið á ofangreindan mælikvarða hækkað um rúm 15% en það hefur hækkað samfellt milli mánaða, að júlí undanskildum, síðan í nóvember á síðasta ári. Þessi þróun endurspeglar hækkun nafngengis krónunnar á sama tímabili en nafngengi krónunnar er nú tæpum 15% hærra en það var í upphafi þessa árs. Gildi raungengisins á ofangreindan mælikvarða er nú komið í 77,8 stig sem er það hæsta sem það hefur verið síðan í febrúar á síðasta ári.

Að okkar mati er raungengið enn nokkur undir því gengi sem tryggir jafnvægi á utanríkisviðskiptum þjóðarbúsins. Teljum við því líklegt að það komi til með að hækka enn frekar þegar fram líða stundir. Á það enn nokkuð í land með að ná sínu langtímameðaltali," segir í Morgunkorninu.

„Að meðaltali hefur gildi raungengisins verið 97 stig á síðustu þremur áratugum, eða um fjórðungi hærra en gildi þess var í nóvember síðastliðnum. Þó er ljóst að ómögulegt er að segja til um hversu langan tíma það tekur raungengið að ná því gildi sem tryggir umrætt jafnvægi, sem og hvort og að hve miklu leiti sú hækkun mun eiga sér rót í hækkun á nafngengi krónunnar og innlendu verðlagi ásamt launum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×