Viðskipti innlent

Fjármagnskostnaður ríkisins snarminnkar

Fjármagnskostnaður af hverjum milljarði sem ríkissjóður seldi í ríkisbréfaútboði gær var einungis þriðjungur af því sem ríkið þurfti að reiða af hendi fyrir fjármögnun af svipuðu tagi í upphafi árs.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að með ríkisbréfaútboðinu í gær hefur ríkissjóður náð markmiðum sínum hvað útgáfu ríkisbréfa varðar og má fullyrða að lánsfjármögnun hans á innlendum markaði þetta árið hafi reynst mun hagstæðari en flestir höfðu gert ráð fyrir.

Smiðshöggið var rekið á ríkisbréfaútgáfuna með sölu á RIKB12-flokknum fyrir ríflega 5,2 milljarða kr. í gær, en alls bárust tilboð að upphæð 8,2 milljarða kr. í flokkinn. Raunar hefði mátt gera ráð fyrir meiri spurn eftir honum í ljósi þess að lokagjalddagi á stórum ríkisbréfaflokki, RIKB1012, stendur fyrir dyrum, en þann flokk eiga erlendir fjárfestar að langmestu leyti.

Hins vegar getur ríkissjóður tæpast kvartað yfir niðurstöðukröfu útboðsins. Hún var 2,37%, en til samanburðar var niðurstöðukrafan í síðasta útboði með flokkinn 3,9% og var þá lægsta ávöxtunarkrafa frá fæðingu flokksins í ágúst síðastliðnum.

Lánamál tilkynntu í gær að hætt hefði verið við útboð ríkisbréfa sem áætlað hafði verið að halda þann 17. desember næstkomandi, enda hefur útgáfuáætlun nú verið náð.

„Líklega hefur fáa grunað í upphafi ársins að ríkissjóður myndi standa frammi fyrir jafn hagstæðri fjármögnun á innlendum markað þegar á árið leið og raun bar vitni. Má þar rifja upp að í fyrsta útboði ársins í febrúarbyrjun á RIKB11-flokknum, sem hafði þá ekki ósvipaðan binditíma og RIKB12-flokkurinn hefur í dag, var niðurstöðukrafan 7,34%," segir í Morgunkorninu.

„Fjármagnskostnaður af hverjum milljarði sem ríkissjóður seldi í gær var því einungis þriðjungur af því sem ríkið þurfti að reiða af hendi fyrir fjármögnun af svipuðu tagi í upphafi árs. Hljóta það að teljast jákvæð tíðindi fyrir skattgreiðendur, þótt fjármagnseigendur minnist væntanlega hárrar ávöxtunar liðinna missera með nokkrum söknuði."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×