Erlent

Varar við því að ferðaþjónusta fari of snemma af stað

Andri Eysteinsson skrifar
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands.
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands. MSC/Niedermueller

Utanríkisráðherra Þýskalands, Heiko Maas, hefur varað við mögulegum afleiðingum þess að ferðaþjónusta í Evrópu fari of snemma af stað að nýju eftir faraldur kórónuveirunnar. Vísaði Maas þar til fjölda smita sem breiddust út frá ferðamannastöðum og nefndi þar sérstaklega austurríska skíðabæinn Ischgl. Reuters greinir frá.

Sjá einnig: Djammstaðurinn Ischgl sem sýkti hálfa Evrópu

„Við höfum þegar séð hvað getur gerst þegar miðpunkt faraldurs er að finna í vinsælum ferðamannastað. Við höfum séð hvaða afleiðingar það getur haft í heimalöngum ferðamanna. Slíkt má ekki gerast aftur,“ sagði Maas.

„Ef Evrópuríki keppast við að koma ferðaþjónustunni af stað að nýju gæti það haft í för með sér mikla áhættu,“ sagði ráðherrann.

Eins og vitað er má rekja fjölda tilfella kórónuveirunnar á Íslandi, Norðurlöndunum og Austurríkis til bæjarins Ischgl í Ölpunum sem fyrir faraldur var þekktur fyrir skemmtanalíf jafnt sem skíðasvæði. Nýlega var takmörkunum aflétt að einhverju leiti í Ischgl en algjört útgöngubann hafði verið í gildi í rúman mánuð.

Austurríki hefur leyft inngöngu ferðamanna inn í landið að nýju en þó eingöngu þýskum ferðamönnum. Ekki hafa landamærin verið opnuð að fullu líkt og raunin var fyrir faraldur.

Heiko Maas sagði að Evrópa þyrfti að koma sér saman um fyrirkomulag ferðamennsku og tryggja ferðafrelsi Evrópubúa eins fljótt og auðið er en þó innan skynsamlegra marka.

„Við megum ekki láta sigra síðustu vikna verða til einskis,“ sagði Maas og bætti við að ef svo yrði myndu hömlur á ferðafrelsi vara mun lengur en ella.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×