Viðskipti innlent

Launakostnaður hækkaði um 50 milljónir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Helgi Þór Arason, forstjóri Landsbréfa
Helgi Þór Arason, forstjóri Landsbréfa
Kostnaður vegna launa og launatengdra gjalda hjá Landsbréfum nam 382 milljónum króna á síðasta ári og hækkaði um 50 milljónir. Þar af nemur kostnaður vegna launa 290 milljónum, en hann var 244 milljónir árið áður.

Meðalstarfsmannafjöldi á árinu var nítján en að auki eru þrír stjórnarmenn á launaskrá. Framkvæmdastjóraskipti urðu hjá Landsbréfum þegar Helgi Þór Arason tók við af Sigþóri Jónssyni í byrjun júní. Helgi var áður forstöðumaður Markaðsviðskipta í Landsbankanum.

Landsbréf skiluðu 188 milljónum króna í hagnað á liðnu ári, sem svarar til tæplega 10,3% arðsemi eigin fjár.

Í afkomutilkynningu sem send var Kauphöll Íslands fyrr í vikunni kemur fram að hreinar rekstrartekjur Landsbréfa námu 1.104 milljónum króna samanborið við 969 milljónir króna rekstrarárið 2013. Eigið fé Landsbréfa í árslok nam um 1.832 milljónum króna en var 1.644 milljónir króna í lok árs 2013.

„Sjóðir Landsbréfa skiluðu fjárfestum almennt góðri ávöxtun á árinu 2014 og rekstur Landsbréfa skilaði eigendum sínum góðri arðsemi,“ sagði í tilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×