Viðskipti innlent

Skipuleggja loftbrú fyrir Íslendinga frá Kanaríeyjum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá höfninni á Kanaríeyjum.
Frá höfninni á Kanaríeyjum. Unsplash/Daria Nepriakhina

Ferðaskrifstofurnar VITA, Ferðaskrifstofa Íslands og Heimsferðir, í samstarfi við Icelandair, hafa skipulagt loftbrú frá Kanaríeyjum til Íslands, í gegnum Las Palmas og Tenerife, til að flýta för þeirra fjölmörgu Íslendinga sem staddir eru á eyjunum og áttu bókað flug heim fyrir páska. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. 

Búið er að setja útgöngubann á alla sem staddir eru á eyjunum og hótel eru að loka eitt af öðru.

Icelandair hefur sett upp fimmtán flugferðir næstu fjóra daga þar sem ferðaskrifstofurnar í samráði við Ferðamálastofu flýta för allra farþega sem eru á þeirra vegum á eyjunum en þeir eru á milli tvö til þrjú þúsund talsins. Reiknað er með að allir farþegar ferðaskrifstofanna verði komnir heim á föstudag.

„Vegna fjölda fyrirspurna hefur Ferðaskrifstofan VITA einnig hafið almenna sölu á flugferðum sem áætlaðar eru seinnipartinn á föstudag frá Tenerife og Kanarí. Flugi verður bætt við ef mikil eftirspurn verður. Markmið Icelandair, ferðaskrifstofanna og Ferðamálastofu er að gefa öllum þeim sem ekki hafa þegar gert ráðstafanir til að komast aftur heim til Íslands tækifæri til þess á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni.

Ekki kemur fram hvað flugið kostar í tilkynningunni. Á vef Vita má sjá að verðið er 89.900 krónur á mann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×