Atvinnulíf

Kók og súkkulaði í morgunmat í 45 ár samfleytt

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Hermann Guðmundsson.
Hermann Guðmundsson. Vísir/Vilhelm

Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Kemi, segist líklegri til að auka við hreyfingu en að fara að borða hollar. Hann hefur fengið sér kók og súkkulaði í morgunmat í 45 ár og segist alveg mæla með því. Hermann skipuleggur vinnuna svolítið út frá árstíðum en þetta árið hefur verið mikið að gera vegna Covid.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Við vöknum alla daga klukkan korter í sjö. Liggjum undir sæng og leyfum okkur að vakna vel áður en farið er inní daginn. Klukkan sjö hefst dagurinn formlega og farið að tygja sig til vinnu.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Fyrsta verkið á morgnanna er að renna yfir tölvupóstana, lesa Morgunblaðið og hlusta á fréttir á Bylgjunni. Það gefur manni innsýn í hvernig dagur er fram undan og hvar er best að eyða kröftunum fyrstu stundirnar.“

Morgunmaturinn þinn hefur vakið athygli og því er spurt: Hvers vegna kók og súkkulaði í morgunmat og hvenær byrjaðir þú á þessu?

Já ég er búinn að fá mér kók og súkkulaði í morgunmat samfleytt í 45 ár. Þetta byrjaði í Fellaskólanum, þar vandist maður á að fá snúð og kakómjólk í morgunkaffinu og það þróaðist fljótlega að við fórum nokkrir frekar í sjoppuna og völdum okkur kók og eitthvað meðlæti.

Ég get alveg mælt með þessu, ég á erfitt með að koma mér almennilega gang ef það er hvergi kók í boði. 

Sælgætisát hefur fylgt mér alla tíð frá því að ég fór að vinna sem tólf ára gutti hjá Kron í Eddufelli við að fylla á goskæla, mjólkurkæla og að sjá um tómar flöskur. Þar með var maður kominn með eigin laun sem fóru að mestu í úttektir í sjoppunni. 

Eftir að fótboltanum lauk þá hefur þetta fæði stækkað mann aðeins á hverju ári en einhvern veginn er vaninn enn of sterkur til að hætta. Ég er líklegri til að auka hreyfinguna aftur en að borða hollar.“

Hermann hefur fengið sér kók og súkkulaði í morgunmat frá því í Fellaskóla fyrir 45 árum síðan.Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Þetta ár hefur verið á margan hátt sérkennilegt, það má líta svo á að við séum að klára síðustu vikurnar í þessu Covid átaki sem hefur staðið í nærri átta mánuði.

Við erum að selja mikið af sóttvarnarvörum, bæði grímur, sótthreinsiklúta og aðrar sótthreinsivörur og eftirspurnin hefur verið margföld á við hefðbundið ár.

Þess vegna er verkefnið þessa síðustu daga í desember að fylgjast með að lagerinn sé að lækka hratt í þessum vöruflokkum sem ég nefndi en á sama tíma er búið að leggja inn pantanir fyrir vörur sem eiga þá meira erindi inná heimamarkað sem er Covid laus sem verður væntanlega meirihluti næsta árs.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

Þegar maður er búinn að vera lengi í sama starfinu þá skipuleggur starfið sig dálítið sjálft eftir árstíðum. Stór hluti af minni vinnu er að skipuleggja innkaupin og passa uppá að rétta varan sé til á réttum tíma og þá helst á góðu verði.

Fyrri hluti vikunnar fer oftast í erlend innkaupa en seinni hlutinn fer meira í markaðsmálin og sölustarfið.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Þessi taktur hefur aðeins breyst með árunum, hér fyrr á árum fór ég aldrei að sofa fyrr en eftir miðnætti en núna er ég æ oftar kominn undir sæng og sofnaður klukkan hálf tólf.“


Tengdar fréttir

Er stundum morgunfúl en dreymir um að vakna eldhress

Rósa Guðný Þórsdóttir leikkona og leikstjóri er gestur kaffispjallsins þessa helgina. Hún viðurkennir að vera stundum morgunfúl en dreymir um að vakna eldhress á morgnana og dansa fram í eldhús.

„Allt of mikill tími í þinginu sem fer í ekki neitt“

Þorsteinn Víglundsson segir þrjá espresso þurfa alla morgna til að rífa sig í gang. Honum leiðist tímasóun og segir hana of mikla á þingi. Að sitja á þingi sé þó mikill heiður. Í forstjórastarfinu í dag eru það hins vegar umhverfismálin sem eru hvað brýnust.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×