Viðskipti innlent

Lands­bankinn hækkar vexti nýrra ó­verð­tryggðra í­búða­lána

Sylvía Hall skrifar
Ákveðið var að breyta vöxtum vegna hækkunar á ávöxtunarkröfu sértryggða skuldabréfa.
Ákveðið var að breyta vöxtum vegna hækkunar á ávöxtunarkröfu sértryggða skuldabréfa. Vísir/Vilhelm

Fastir vextir á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum hjá Landsbankanum hækka um 0,15 til 0,20 prósentustig frá og með þriðjudeginum 17. nóvember. Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum verða áfram 3,5 prósent.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum en þar segir að Landsbankinn hafi verið í forystu um að lækka útlánsvexti frá því að Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferli. Eftirspurn eftir íbúðalánum bankans hafi aukist verulega en ákveðið hafi verið að breyta vöxtum vegna hækkunar á ávöxtunarkröfu sértryggða skuldabréfa.

„Landsbankinn fjármagnar íbúðalán meðal annars með útgáfu sértryggðra skuldabréfa með föstum vöxtum sem boðin eru út á skuldabréfamarkaði. Vaxtabreytinguna nú má fyrst og fremst rekja til þess að ávöxtunarkrafa sértryggðra skuldabréfa hefur hækkað umtalsvert frá síðustu vaxtabreytingu.“

Þá hækka fastir vextir óverðtryggðra íbúðalána til 36 mánaða um 0,15 prósentustig og fastir vextir óverðtryggðra íbúðalána til 60 mánaða hækka um 0,20 prósentustig. Fastir vextir til 36 mánaða vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækka um 0,15 prósentustig en aðrir útlánsvextir eru óbreyttir.

Fastir innlánsvextir til 36 mánaða hækka um 0,15 prósentustig og fastir innlánsvextir til 60 mánaða hækka um 0,20 prósentustig. Einnig verða breytingar á innlánsvöxtum gjaldeyrisreikninga í sterlingspundum, Kanadadal og norskri krónu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×