Bankastræti 5 hefur verið auglýst til leigu eins og fram kemur á fasteignavef Vísi. Húsnæðið er í eigu Fasteignafélagsins Eik. Undanfarin ár hefur skemmtistaðurinn b5 verið þar til húsa.
Jónas Óli Jónasson, meðeigandi skemmtistaðarins b5, segist ekki vilja tjá sig um málið og vísar öllum fyrirspurnum á Eik. Eigendur b5 hafa leigt húsnæðið af Eik í þónokkur ár en staðurinn hefur verið lokaður undanfarna mánuði vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdóminum.
Þórður Ágústsson, einn af eigendum staðarins, hefur áður gagnrýnt fasteignafélagið Eik sem hækkaði leiguna á b5 eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á og hefur hún verið 3,5 milljónir á mánuði.
Um er að ræða 450 fermetra atvinnuhúsnæði á jarðhæð þar sem b5 hefur verið til húsa í um fimmtán ár.
Sjálfur hefur Jónas Óli verið mjög hávær í allri umræðu um sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda í tengslum við kórónuveiruna.
B5 hefur verið gríðarlega vinsæll skemmtistaður meðal ungs fólks í mörg ár og hefur til að mynda verið hægt að leigja sér flöskuborð á staðnum, bæði á efri hæðinni og í einkaherbergi í kjallaranum.
Hér að neðan má sjá myndir af eigninni.


