Gagnrýni

Borat Subsequent Movie Film: Sacha gerir áróðursmynd fyrir Demókrataflokkinn

Heiðar Sumarliðason skrifar
Borat reynir að gefa dóttur sína.
Borat reynir að gefa dóttur sína.

Hvað gerir afhjúparinn þegar skotmarkið hefur sjálfviljugt afhjúpað sig? Eðlilegast væri sennilega að hann fyndi ný mál til að afhjúpa. Sacha Baron Cohen lætur það þó eiga sig og heldur áfram á sömu vegferð og sendir frá sér hraðsoðið framhald af Borat Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan. Nýja myndin kallast Borat Subsequent Movie Film og er nú komin á Amazon Prime.

Helsti vandinn sem steðjar að Cohen er að þorri fólks veit nú að Borat er leikin persóna, því er ekki lengur hægt að plata almenna borgara og stjórnmálamenn til að gera sig að fífli. Þessu áttar hann sig á og reynir að bregðast við því með að kynna inn nýja persónu, Tutar Sagdiyev, sem er dóttir Borats. Söguþráðurinn gengur svo að mestu út á að Borat reynir að færa dóttur sína varaforseta Bandaríkjanna sem gjöf. 

Borat og Tutar á svokölluðu debutant ball.

Persóna Tutar er hins vegar ekki sérlega krassandi viðbót og í stað þess að samband þeirra feðgina sé fyndið, endar það á að vera hvimleitt. T.d. er brandarinn um að geyma konur í búri fyndinn einn og sér í stutta stund, en þegar hann er orðinn jafn fyrirferðarmikill og hér, verður hann á endanum pirrandi. Þetta á því miður við um margar eindir myndarinnar. Hlutir sem áður voru stuttir brandarar, hafa fengið of mikið vægi. 

Nýr forseti, annað andrúmsloft

Annar vandi sem steðjar að þessari nýju Borat-mynd er að það er fátt sem hún getur afhjúpað í bandarískri pólitík. Þegar fyrri myndin kom út var George W. Bush forseti (eða premier) Bandaríkjanna. Fólk grunaði að hann væri ekkert sérlega hæfur til að gegna embættinu, en hann a.m.k. þóttist vera hæfur og reyndi að hljóma sem gáfulegastur (þó það tækist oft illa). Á þeim tíma kemur Borat inn til Bandaríkjanna í umhverfi þar sem nóg er af hlutum til að afhjúpa og gerði hann það ansi vel og á fyndinn máta. 

Þegar hann mætir á svæðið í þetta skiptið hafa kringumstæður heldur betur breyst. Þó forsetinn sé vanhæfur líkt og síðast, þá er áran í kringum embætti hans slík að það vefst ekki fyrir neinum að hann er trúður, og líklegast með einhverja persónuleikaröskun. 

Rudy líkaði athyglin frá Tutar.

Þetta er sama vandi og hefur steðjað að Saturday Night Live á embættistíma Trumps: Hvernig á að gera grín að trúði? Það er eiginlega ekki hægt, þar sem öll hans embættisverk eru kómedía. Landið er í höndum fábjána og perverta, og við vitum það. Það er engin stórkostleg afhjúpun fólgin í því að grípa Rudolph Giuliani við það að gera hosur sínar grænar fyrir ungri konu sem virðist vera að fara á fjörurnar við hann, við búumst bara við því. Maðurinn er ekki einu sinni giftur, þannig að þetta skiptir í grunninn engu máli. Ef honum hefði hins vegar verði sagt að hún væri fimmtán ára, eins og hún á að vera í myndinni, þá horfir málið öðruvísi við. Það var honum aftur á móti ekki sagt. Svo er leikkonan Maria Bakalova (sem túlkar Tutar) 24 ára gömul. Ég játa fúslega að ég hló þegar ég horfði á þetta, en eftir smá íhugun, þá er þetta meira í ætt við einelti (jafn lítið og ég er nú gefinn fyrir Giuliani og hans líka). Því var ég skilinn eftir með óbragði í munni, sem gerist því miður full oft í þessari mynd.

Þetta er svo sem ekki það eina sem gerir það að verkum að myndin veldur vonbrigðum, hún þjáist einnig af því sem plagar svo margar framhaldsmyndir, það þarf alltaf að toppa þá síðustu. Þetta þýðir oftast stærri sprengjur, fleiri morð og meira blóð. Það er auðvitað ekki mikið um morð og sprengjur í Borat, en blóðið flæðir t.d. í senu sem gerði fátt annað en að gefa mér kjánahroll. Þetta átti við um of margar senur í myndinni. Það er sennilega ómögulegt að toppa, eða jafna meistaraverk eins og Borat, en ég vonaðist nú samt til að það væri aðeins meiri safi í þessu.

Áróðursmynd fyrir Demókrata

Fyrri Borat-myndin er mín eftirlætis gamanmynd, mér finnst hún í raun fullkomin. Ég man hreinlega ekki eftir að hafa hlegið jafn mikið og innilega yfir einni kvikmynd. Hún náði að fanga einhverja töfra sem aðrar gamanmyndir Cohens hafa ekki komist nálægt því að gera. Hér er hann því miður langt frá því að ná sömu hæðum og áður, því er Borat Subsequent Movie Film vonbrigði.

Borat segir frá þorpinu sínu í fyrri myndinni.

Til að bæta gráu ofan á svart er þessi framhaldsmynd í raun vart dulbúin áróðursmynd fyrir Demókrataflokkinn í Bandaríkjunum. Og þó mig langi gjarnan til að losna við premier Trump úr embætti, finnst mér sorglegt að ákveðið hafi verið að nota Borat sem tól í pólitískri herferð. Það er fátt meira pirrandi og hjákátlegt en þegar leikstjörnur verða pólitískir aktívistar og það fer að smitast inn í verk þeirra.

Framhaldsmyndir varpa oft skugga á arfleifð fyrirrennara sinna og það er því miður tilfellið hér. Það hefði sennilega verið best fyrir Cohen að finna sköpunargáfu sinni annan farveg, enda sannaði hann með þáttaröð sinni Who is America að hann á nóg inni. 

Niðurstaða:

Tvær og hálf stjarna.

Það eru nokkur mjög fyndin atriði í myndinni, þar sem ég skellti upp úr, en þau voru of fá og of langt á milli. Það er einhvern veginn allt gas úr honum Borati okkar og útkoman nokkur vonbrigði.

Heiðar Sumarliðason ræddi við handrithöfundinn Hrafnkel Stefánsson og rithöfundinn Snæbjörn Brynjarsson um Borat í nýjasta þætti Stjörnubíós, en hægt er að hlýða á hann hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×