Körfubolti

Denver Nuggets neitar að „deyja“ og er komið aftur í hreinan úrslitaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Jokic og Jamal Murray fagna í endurkomusigrinum hjá Denver Nuggets í nótt.
Nikola Jokic og Jamal Murray fagna í endurkomusigrinum hjá Denver Nuggets í nótt. EPA-EFE/ERIK S. LESSER

Los Angeles Clippers og Denver Nuggets þurfa að spila hreinan úrslitaleik um sæti í úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA og um það hvort þeirra mætir liði Los Angeles Lakers.

Los Angeles Clippers hefur klikkað á því að tryggja sér sæti í úrslitum Vesturdeildarinnar í tveimur leikjum í röð og fyrir vikið er liðið komið í hreinan úrslitaleik á móti lífseigu liði Denver Nuggets.

Denver Nuggets vann sjötta leik liðanna 111-98 og liðin spila hreinan úrslitaleik um sæti í úrslitum Vestursins á móti Los Angeles Lakers en sá leikur fer fram aðra nótt.

Denver Nuggets er seigara lið en þau flest og getur nú skrifað NBA-söguna takist liðinu að slá út Los Angeles Clippers með sigri í sjöunda leiknum. Engu liði hefur tekist að vinna tvisvar upp 1-3 forystu mótherjanna tvisvar sinnum í sömu úrslitakeppni.

Denver Nuggets var 1-3 undir á móti Utah Jazz og svo aftur á móti Los Angeles Clippers. Denver vann oddaleikinn á móti Utah Jazz og er nú komið aftur í oddaleik eftir tvo sigurleiki í röð á móti Clippers.

Nikola Jokic átti rosalegan leik en hann skoraði 34 stig, tók 14 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Jamal Murray skoraði 21 stig fyrir Denver en liðið fékk líka 16 stig frá Gary Harris og 13 stig frá Michael Porter Jr. Paul George var stigahæstur hjá Clippers með 33 stig og Kawhi Leonard skoraði 25 stig.

Útlitið var ekki aðeins svart í einvíginu heldur einnig í leik fimm á móti Utah Jazz. Denver vann þá upp fimmtán stiga forystu í þriðja leikhlutanum í leik fimm. Nú lenti Denver nítján stigum undir snemma í þriðja leikhluta en tókst að vinna upp forskot Clippers manna og tryggja sér sigurinn.

Paul George kom Los Angeles Clippers liðinu í 73-55 þegar 8:35 voru eftir af þriðja leikhlutanum en Nuggets liðið svaraði því með 30-8 spretti. Átta mismunandi leikmenn Denver liðsins skoruðu fyrir liðið á þeim kafla. Denver vann seinni hálfleikinn á endanum 64-35.

„Þetta er einn sá besti á mínum ferli. Þetta er sá besti á mínum ferli,“ sagði Mike Malone, þjálfari Denver Nuggets eftir leikinn.

„Ég er að vera búinn að lýsingarorðin þegar ég er að tala um liðið mitt. Þetta er harðgerður og úrræðagóður hópur. Ég elska okkar lið,“ sagði Malone.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.