Atvinnulíf

Heimabökuð pizza húsbóndans vinsæl og fjármögnun fyrirtækisins framundan

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Kolbrún Hrafnkelsdóttir stofnandi Florealis.
Kolbrún Hrafnkelsdóttir stofnandi Florealis. Vísir/Vilhelm

Dagarnir eru vel skipulagðir hjá Kolbrúnu Hrafnkelsdóttur sem hjálpar dætrunum við tónlistarnámið fyrir skóla á morgnana en vinnur þessa dagana í undirbúningi að stórri fjármögnun sem fyrirtækið stefnir að því að klára um áramótin. Kolbrún er stofnandi fyrirtækisins Florealis. Hún segir fjölskyldukvöldin á föstudagskvöldum sínar uppáhaldsstundir.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefni í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Klukkan hringir yfirleitt klukkan hálf sjö virka daga, suma daga vakna ég hálf sex og fer á morgunæfingu.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Morgnarnir fara í fiðlu- og píanóæfingar með dætrum mínum, en ég hjálpa þeim við æfingarnar áður en skóladagurinn byrjar.“

Við eigum okkur oft uppáhaldsstund á daginn eða yfir vikuna. Hvaða stund myndir þú segja að væri þín uppáhaldsstund eða móment“?

Föstudagskvöldin eru fjölskyldukvöld og eru í lang mestu uppáhaldi hjá mér. Heimabökuð pizza húsbóndans er oft á matseðlinum og sonurinn sem fluttur er að heiman kíkir oft í heimsókn.

Við gerum yfirleitt öll eitthvað saman eins og horfa á kvikmynd eða spilum, stundum fáum við líka vini í mat og þá fylgja oft með einhverjir skemmtilegir leikfélagar fyrir dæturnar.“

Kolbrún segir uppáhaldsstundina sína yfir vikuna vera fjölskyldukvöldin á föstudögum.Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Þessa dagana er fyrirhuguð fjármögnun Florealis efst á baugi. Við stefnum að því að klára stóra fjármögnun í kringum áramótin og er undirbúningurinn í fullum gangi.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

Ég geri vinnuskipulagið með hjálp outlook daily task list, þar set ég upp öll verkefni bæði stór og smá. 

Mér finnst þetta kerfi gott þar sem það tengist tölvupóstinum og dagatalinu, auðvelt að forgangsraða og setja upp áminningu.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Ég er komin upp í rúm klukkan tíu á virkum dögum, hlusta stundum á hljóðbók, kíki á samfélagsmiðlana eða horfi á einn þátt áður en ég fer að sofa.“


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×