Viðskipti innlent

Enginn banki sér hag í að opna úti­bú í Hvera­gerði

Atli Ísleifsson skrifar
Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hefur lýst yfir vonbrigðum með viðbrögð bankanna.
Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hefur lýst yfir vonbrigðum með viðbrögð bankanna.

Enginn viðskiptabankanna sér sér hag í að opna útibú í Hveragerði, en ekki er rekið neitt bankaútibú í bænum eftir að Arion banki lokaði sínu síðasta vor.

Frá þessu segir í fundargerð bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar, en RÚV sagði fyrst frá málinu.

Bæjarstjórn leitaði eftir upplýsingum um hvaða þjónustu Arion, Íslandsbanki og Landsbanki væru tilbúin til að veita íbúum í Hveragerði. Sömuleiðis var óskað tilboða í helstu viðskipti Hveragerðisbæjar.

„Það eru bæjarstjórn mikil vonbrigði að enginn af þessum bönkum skuli sjá hag sinn í því að opna útibú hér í Hveragerði, í bæjarfélagi sem telur um 2.750 íbúa auk mikils fjölda innlendra jafnt sem erlendra ferðamanna sem hér dvelja til lengri eða skemmri tíma,“ segir í fundargerðinni.

Sérkennilegt að hafa útibú hlið við hlið á Selfossi

Bæjarstjórn telur það sérkennilegt að sjá að allir bankarnir telji „nauðsynlegt að hafa útibú, svo til hlið við hlið, á Selfossi“.

Á sama tíma sé íbúum Hveragerðisbæjar sagt að engin nauðsyn sé á útibúi þar enda hægt að sinna öllum viðskiptum við banka rafrænt.

Áfram í viðskiptum við Arion banka

Bæjarstjórn segir þá staðreynd ætti gera það mögulegt að útibúum bankanna væri dreift jafnar í þéttbýliskjarna svæðisins en nú sé gert.

Arion banki lokaði útibúi sínu í þessu húsi í maí.Vísir/Atli

„Hinn stafræni heimur virkar ekki bara á einn veg hann getur hæglega virkað til dreifingar þjónustu vítt og breitt um landsbyggðina standi raunverulegur hugur til þess.

Í ljósi þeirra tilboða sem hér eru lögð fram mun bæjarstjórn semja um áframhaldandi bankaviðskipti við Arion banka sem býður hagstæðustu viðskiptakjörin fyrir Hveragerðisbæ og jafnframt örlitla þjónustu við íbúa bæjarins i formi innlagnarhraðbanka sem aðgengilegur verður allan sólarhringinn, viðveru og þjónustu vikulega við umræddan hraðbanka auk kennslu og aðstoð við íbúa á Dvalarheimilinu Ási í notkun á stafrænni þjónustu,“ segir í fundargerðinni.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×