Innlent

Axel Einarsson látinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Axel lék meðal annars með hljómsveitunum Icecross og Deildarbungubræðrum.
Axel lék meðal annars með hljómsveitunum Icecross og Deildarbungubræðrum. aðsent

Axel P.J. Einarsson tónlistarmaður er látinn. Hann lést að morgni 5. september á Landspítalanum. Axel spilaði meðal annars í hljómsveitunum Icecross og Deildarbungubræðrum. Hans þekktasta lag er án efa „Hjálpum þeim“ sem kom út árið 1985 til að safna fé vegna hungursneyðar í Eþíópíu.

Axel fæddist 27. október árið 1947 og ólst upp fyrstu árin á Fáskrúðsfirði. Faðir hans var Einar Guðni Sigurðsson (f.11.02.1904 d.14.11.1965) kaupfélagsstjóri og hreppstjóri. Móðir Axels var Antona Gunnarstein (f.29.06.1917 d. 17.12. 1989) frá Færeyjum. Eftir að þau fluttu frá Fáskrúðsfirði til Reykjavíkur vann hún ýmis veitingastörf, t.d. á Gildaskálanum og Hótel Esju og Einar vann hjá Eimskipafélagi Íslands til æviloka.

Axel fékkst við margt gegnum ævina. Hann var húsasmiður að mennt en starfaði meðal annars sem kokkur á fiskibátnum Glófaxa VE 300. Tónlistaráhuginn kviknaði snemma og lærði hann ungur á gítar. Axel Einarsson var áberandi í tónlistarlífinu á sjöunda og áttunda áratugnum, á fyrstu rokk og bítlaárunum. Síðan starfaði hann mikið við upptökur og samdi fjölmörg lög.

Axel var í fjölda hljómsveita og má þar helst nefna Tilveru, Icecross og Deildarbungubræður.

Þekktasta lag Axels er án efa „Hjálpum þeim“ sem kom út árið 1985.

Axel rak hljóðver um margra ára skeið „Stúdíó Stöðin“ og gaf út mikið af tónlist, ekki síst barnaefni, meðal annars Sönglögin í leikskólanum.

Síðustu árin bjó Axel í Svíþjóð og vann hann að tónlist sem hann leit á sem lífsverk sitt og mun koma út á næstunni. Blessunarlega náði hann að klára verkið með aðstoð góðra vina.

Axel lætur eftir sig tvær dætur og fósturson. Elísabet Axelsdóttir, Rakel María Axelsdóttir og Heiðar Steinn Pálsson, sex barnabörn og þrjú langafabörn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×