Makamál

„Hvaða kynlíf ertu að stunda og hvaða kynlíf viltu stunda?“

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Aldís Ólafsdóttir kynlífsráðgjafi ræðir meðal annars um kynlíf, kynlífsvanda, kynlöngun og streitu í viðtali við Makamál. 
Aldís Ólafsdóttir kynlífsráðgjafi ræðir meðal annars um kynlíf, kynlífsvanda, kynlöngun og streitu í viðtali við Makamál.  Mynd - Heiðrúnu Fivelstad

„Mér finnst mikilvægt að brjóta upp viðhorf og hugmyndir um að kynlíf snúist um frammistöðu og að þeir sem stundi kynlíf þurfi að einbeita sér að því að standa sig. Slíkt getur ýtt undir kvíðahugsanir.“ Þetta segir Aldís Ólafsdóttir sálfræðingur og kynlífsráðgjafi, í viðtali við Makamál.

Aldís útskrifaðist sem sálfræðingur árið 2014 og hefur starfað sem slíkur síðan þá. Árið 2016 byrjaði hún einnig að vinna sem ráðgjafi fyrir Samtökin '78. Aldís starfar í dag sem sálfræðingur og kynlífsráðgjafi hjá Domus Mentis Geðheilsustöð. 

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á kynfræði og því meira sem ég starfaði með pörum og hinsegin fólki því meira fann ég að ég þyrfti að bæta við mig þekkingu til að geta sinnt kynlífsráðgjöf þegar umræður um kynlíf eða kynlífsvanda komu upp í meðferð.

„Ég fór í nám til Bandaríkjanna, því þetta nám er ekki í boði á Íslandi, og útskrifaðist sem kynlífsráðgjafi í apríl á þessu ári frá University of Michigan.“

Að geta tekist á við vanda sem snýr að kynlífi segir Aldís vera mikilvægt þegar slíkt kemur upp hjá fólki en hún segist óttast að margir þori ekki að nefna vanda tengdan kynlífi nema sá vandi sé sérstaklega til umræðu.

„Í náminu var bæði verið að fara yfir greiningu og meðferð á kynlífsröskunum en einnig er litið á kynlífsvanda í víðari samhengi. Kynlífsráðgjöf er heildræn nálgun og oft þarf að vinna með samskipti, traust eða ánægju í sambandinu, samhliða því að tækla kynlífsvanda. Einnig þarf að skoða líkamlega þætti og heilsu, lyf, líðan og fleira.“

Aldís er menntaður sálfræðingur en bætti við sig námi í kynlífsráðgjöf frá University of Michigan. Aðsend mynd

Finnst þér fólk almennt vita það að það sé hægt að leita sér ráðgjafar hjá fagfólki vegna kynlífsvanda?

„Mín upplifun er sú að fleiri vita af því í dag að hægt sé að leita sér aðstoðar vegna kynlífsvanda en gerðu áður. Á Íslandi hafa tveir menntaðir kynlífsráðgjafar sinnt kynlífsráðgjöf undanfarna áratugi. Með hverju viðtali og blaðagrein virðist þekking fólks á störfum kynlífsráðgjafa aukast. Ég reyni að halda því áfram með því að auka vitneskju fólks um þessa þjónustu og halda umræðunni um kynlíf og kynlífsvanda uppi.“

Umræðan um kynlíf oft grunn og kynjuð

Aðspurð hvað henni finnist vanta í umræðuna og umfjöllun í fjölmiðlum varðandi kynlífsvanda, segir hún hana oft takmarkaða og einskorðaða við gagnkynhneigð.

„Það vantar ýmislegt í umræðuna um kynlíf í dag. Við sjáum yfirleitt umræðu um kynlíf í hversdagslífinu birtast í stuttum greinum þar sem boðið er uppá leiðir til að krydda eða bæta kynlífið. Þessi umræða er oft grunn og kynjuð.“

Oft gengur umræðan út frá því að lesandi sé gagnkynhneigður, í langtímasambandi með einni manneskju, ófatlaður og hafi áhuga á því sama og flestir aðrir af sama kyni. 

„Mér finnst mikilvægt að brjóta upp hugmyndir um að kynlíf snúist um frammistöðu og að þeir sem stundi kynlíf þurfi að einbeita sér að því að standa sig. Slíkt getur ýtt undir kvíðahugsanir.“

Konur upplifa skömm og og karlmenn pressu

Aldís segir fólk koma inn í kynlífsráðgjöf með allskonar hugmyndir um hvernig það eigi að haga sér í tengslum við kynlíf. Oft hafi uppeldið mótað þessar hugmyndir og síðan samfélagsleg viðmið styrkt þær enn frekar.

„Sumar konur upplifa skömm í tengslum við það að vera kynverur, fengu þær upplýsingar að þær ættu ekki að snerta sig eða hafa áhuga á sjálfsfróun eða kynlífi. Sumir strákar upplifa pressu út frá þeirri hugmynd að kynlíf snúist um þeirra frammistöðu og að þeir eigi alltaf að vera til í kynlíf.“

Það er kominn tími til að sleppa takinu á gömlum handritum og leyfa kynlífi að snúast um að njóta. Það virkar ekki eitt fyrir alla en mikilvægt er að þora að tala um kynlíf og það sem kveikir í þér.

Aldís hefur unnið sem ráðgjafi hjá samtökunum '78 og segir hún hinsegin fólki finnist oft betra að leita sér ráðgjafar varðandi kynlíf hjá fólki sem hefur sjálft reynslu af hingsegin veruleikanum. Getty

Skiptir máli að sjúkdómsvæða ekki hinseginleikann

Nú segir þú að hinsegin fólk leiti frekar til þín en gagnkynhneigt fólk, hver heldur þú að sé ástæðan fyrir því?

„Ég hef alltaf reynt að miðla því að allir hópar eru velkomnir til mín. Hinsegin fólki finnst gott að leita til sérfræðinga sem hafa þekkingu á málefnum hinsegin fólks.“

 Þó svo að fólk sé að vinna með kvíða, þunglyndi eða lágt sjálfsmat þá er gott að geta rætt hinseginleikann og vera samþykktur nákvæmlega eins og þú ert. Þá skiptir mestu að sjúkdómsvæða ekki hinseginleikann eða skýra allan annan vanda út frá hinseginleikanum.

Aldís segist alltaf vera að bæta við sig þekkingu þó svo að hún telji sig vita margt þegar það kemur að veruleika hinsegin fólks. Hún talar einnig um aðdáun sína á ungu fólki í dag, segir það óhrætt við að segja hvað þeim finnst ogð a orða sinn veruleika eða upplifun.

„Ef við viljum bjóða fólk sem er jaðarsett í samfélaginu sérstaklega velkomið er mikilvægt að það komi fram í lýsingu á þjónustu. Ég hef reynt að nefna þar að fólk er velkomið óháð kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu. Einnig tek ég fram að fólk í allskonar sambandsformum og BDSM-hneigðir einstaklingar eða pör, eru velkomin.“

Óháð kynhneigð eða kynvitund fólks, eru pör og einstaklingar oft að takast á við svipaða hluti að sögn Aldísar og því leggur hún áherslu á að það er mikilvægt að allir geti leitað sér aðstoðar óháð kynhneigð, stétt eða stöðu.

Bæði fólk sem er einhleypt og fólk í samböndum leitar sér ráðgjafar hjá kynlífsráðgjöfum og segir Aldís það mikilvægt að fólk geti rætt um þarfir sínar og langanir. Getty

Ólík kynlöngun og trúnaðarbrestir

Er fólk sem leitar sér aðstoðar vegna kynlífs yfirleitt fólk sem er í samböndum?

„Bæði einstaklingar og pör leita sér aðstoðar vegna kynlífsvanda. Stundum snýr vandinn að ólíkri kynlöngun sem hefur áhrif á kynlíf parsins. Einnig getur trúnaðarbrestur eða framhjáhald leitt fólk inn í para- og kynlífsráðgjöf. Það getur einnig verið vandi til staðar hjá einstaklingum óháð því hvort viðkomandi sé í sambandi eða ekki. Þar má nefna risvanda, fullnægingarvandia eða sársauka við kynlíf. Kynlífsvandi getur einnig verið til staðar vegna áfalla.“

Til mín leita einnig einstaklingar sem upplifa óöryggi í kynlífi eða í tengslum við rómantísk samskipti. Einstaklingar sem eru að prófa sig áfram eða skoða það að vera í fjölkæru sambandi eða vilja opna samband sitt.

Streita í nútímasamfélagi segir Aldís hafa mikil áhrif á kynlíf og kynlöngun fólks. Enn fremur segir hún það mikilvægt að fólk taki sjálft ábyrgð á sinni kynlöngun. Getty

Streita og kynlöngun fara ekki vel saman

Við tölum um streitu og áhrif streitu á kynlíf og kynlöngun kvenna en  Aldís  segir að hraðinn í nútímasamfélagi geti leitt af sér mikla streitu hjá fólki. 

„Það er margt sem hefur áhrif á kynlöngun kvenna. Sjálfsmyndin, áföll, streita, erfiðleikar í sambandinu, aukið álag í kringum barneignir og veikindi. Í nútíma samfélagi er mikill hraði sem oft fylgir mikil streita.“

Konur sem eru í fullri vinnu fara svo heim og sinna ólaunuðum störfum sem snúa að heimilishaldi, eldamennsku, heimalærdómi og svo bætist við að sinna áhugamálunum, vinum/vinkonum og sambandinu. Streita og kynlöngun fara ekki vel saman.

„Á tímum þar sem streita er mikil í lífi fólks upplifa fæstir löngun í að liggja hjá ástinni sinni, kyssast, njóta stundarinnar og stunda kynlíf. Þá er kerfið að segja okkur að vera á varðbergi, undirbúa næsta dag og helst ekki staldra of lengi við. Með tímanum fer streita þá hægt og rólega að draga úr kynlöngun.“

Að bera ábyrgð á sinni kynlöngun, segir Aldís að sé eitthvað sem fólk þurfi almennt að temja sér. Að átta sig á því að það er ýmislegt sem slekkur á kynlöngun en einnig ýmislegt sem kveikir á henni. 

„Fyrir margar konur er slökun, núvitund, það að draga úr kröfum og að vinna að bættri sjálfsmynd góð byrjun. Að leyfa sér að vera kynvera og skapa fleiri augnablik í hversdagslífinu sem snúa að því að njóta. Að búa til tíma og rými fyrir kynlíf eða sjálfsfróun er einnig mikilvægt. 

Að lokum segir Aldís að það sé hollt fyrir hvern og einn að velta því fyrir sér hvort að kynlífið sem það er að stunda sé í raun það kynlíf sem það vill. 

Það þarf að að hugsa um þessa hluti, hvaða kynlíf þú ert að stunda og hvað þú vilt stunda og þora svo að tala um það. 

Tengdar fréttir

„Konur mættu vera blíðari við sjálfa sig eftir meðgöngu“

„Konur mættu vera blíðari við sjálfa sig eftir meðgöngu, klappa sér á bakið fyrir að hafa gengið með barn og ekki vera að stressa sig á því að fara í sama form og þær voru í áður“, segir Gerður Jónsdóttir, íþróttafræðingur, í viðtali við Makamál.

„Ég elska konur, ég elska kynsegin fólk, ég elska karla“

„Ég geri mitt besta að sýna allskonar fólk í verkum mínum og mennta mig um baráttur þeirra eins og fötlunarfordóma, fitufordóma, hinseginfordóma og fleira í þeim dúr. Ég vil að þau sem hafa ekki séð sjálf sig í myndlist geti séð sig í mínum verkum.“ Þetta segir Alda Hrannardóttir listakona í viðtali við Makamál.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.