Heimsmarkmiðin

Tvö hundruð þúsund fylgdarlaus flóttabörn í Evrópu

Heimsljós
Barnaheill – Save the Children © Zuleta Ríos

Samkvæmt gögnum sem tekin voru saman af Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat), Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Barnaheillum – Save the Children eru um 200 þúsund fylgdarlaus börn í Evrópu. Þau koma flest frá Afganhistan, Sýrlandi og Erítreu og dvelja flest í Þýskalandi, Grikklandi, Ítalíu og Svíþjóð. Sjóferðir flóttamanna yfir Miðjarðarhafið tvöfölduðust milli áranna 2018 og 2019.

Á síðustu fimm árum hafa að minnsta kosti 700 börn á flótta drukknað í Miðjarðarhafinu. Að mati Barnaheilla – Save the Children er líklegt að sú tala sé vanmetin. „Það er erfitt að ímynda sér hvað flóttabörn ganga í gegnum. Mörg þeirra hafa aldrei séð sjóinn áður, kvíða sjóferðinni og örlögum sínum í Evrópu. Flest barnanna hafa drauma um betra líf þegar þau flýja átök og ofbeldi yfir til Evrópu,“ segir í frétt frá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi.

Í gær voru fimm ár liðin frá því að andlát Alan Kurdi, þriggja ára sýrlensks flóttabarns, rataði í heimsfréttirnar. Alan flúði ásamt fjölskyldu sinni átökin í Sýrlandi, á yfirfullum báti yfir Miðjarðarhafið frá Tyrklandi, en báturinn sökk stuttu eftir brottför. Foreldrar hans höfðu greitt sem samsvarar rúmlega 800 þúsund íslenskum krónum fyrir fjögur pláss á bátnum sem hvolfdi. „Dauði Alan Kurdis er hörmuleg áminning um þau óteljandi börn sem enn reyna að leita öryggis í Evrópu,“ segir í frétt Barnaheilla.

Tíu þúsund börn föst í Grikklandi

„Sérhvert flóttabarn á sér sögu en flest þeirra eru að flýja grimmilegt ofbeldi og misnotkun. Mörg koma frá Sýrlandi þar sem helmingur allra barna í landinu þekkir ekkert annað en stríð. Önnur koma frá Afghanistan þar sem þriðjungur allra þeirra er láta lífið eru börn,“ segir í fréttinni með tilvísun í nýja skýrslu samtakanna: Protection Beyond Reach: State of play of refugee and migrant children´s rights in Europe, en þar er skoðað hvernig aðstæður flóttabarna hafa breyst síðustu fimm ár.

Barnaheill – Save the Children segja að í skýrslunni sé dregin upp skelfileg mynd. „Mörg barnanna sem reyna að flýja átök og stríð komast aldrei til Evrópu en það er vegna samkomulags sem Evópusambandið hefur gert við Tyrkland og Líbíu og verða börnin því strandaglópar í Tyrklandi á leið sinni til Evrópu. Ef börn komast þaðan og til Evrópu þurfa þau oft að þola hræðilegar aðstæður á grískum eyjum þar sem að meðaltali tíu þúsund börn eru föst á hverjum degi, þar af eru flest börn yngri eru 12 ára. Flest þessara barna skortir grunnþarfir á borð við góða næringu og menntun.“

Sjá ítarlega frétt á vef Barnaheilla - Save the Children á Íslandi.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×