Viðskipti innlent

Kaupir fjórðungs­hlut í Sagafilm

Atli Ísleifsson skrifar
Eigendur Sagafilm eru KPR ehf. og HilGun ehf. og nú Beta Nordic Studios.
Eigendur Sagafilm eru KPR ehf. og HilGun ehf. og nú Beta Nordic Studios. Sagafilm

Beta Nordic Studios, dótturfyrirtæki Beta Film í Þýskalandi hefur keypt 25 prósenta hlut í Sagafilm.

Í tilkynningu frá Sagafilm segir að Beta Film starfi jafnt við framleiðslu, dreifingu og fjármögnun hágæða kvikmynda- og sjónvarpsverkefna, verið stofnað árið 1959 af Leo Kirch og sé með höfuðstöðvar í München í Þýskalandi. Þá eru starfræktar skrifstofur víða um heim.

„Með Beta Nordic Studios í hluthafahópi Sagafilm eykst til muna aðgengi að alþjóðadreifingu fyrir kvikmynda- og sjónvarpsefni Sagafilm, auk þess sem þetta er staðfesting á stöðu og árangri Sagafilm á alþjóðamörkuðum undanfarin misseri. Tilgangur þessara kaupa er að efla vöxt Sagafilm enn frekar á þeim mörkuðum.

Kaupin eru að fullu frágengin en kaupverðið er trúnaðarmál. Fulltrúar Beta Nordic Studios taka sæti í stjórn félagsins og ekki er gert ráð fyrir að neinar breytingar verði á starfsemi Sagafilm, sem er elsta kvikmyndaframleiðslufyrirtæki landsins, stofnað árið 1978.

Framkvæmdastjóri Beta Nordic Studios er Martin Håkansson. Hann mun setjast í stjórn Sagafilm, ásamt Justus Riesenkampff, yfirmanni Norðurlandamála hjá Beta Film.

Sagafilm er þriðja fyrirtækið á Norðurlöndunum sem Beta Nordic Studios kaupir hlut í, en áður hefur félagið keypt hluti í Fisher King í Finnlandi og í Dramacorp í Svíþjóð. Öll fyrirtækin hafa það að markmiði að framleiða hágæða kvikmyndaefni fyrir sjónvarp og kvikmyndadreifingu,“ segir í tilkynningunni.

Ragnar Agnarsson verður áfram stjórnarformaður Sagafilm og er haft eftir honum að velta félagsins hafi rúmlega tvöfaldast á innan við þremur árum og séu enn meira spennandi tímar framundan.

Eigendur Sagafilm eru KPR ehf. og HilGun ehf. og nú Beta Nordic Studios. Félagið velti 2,3 milljörðum á árinu 2019.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×