Atvinnulíf

Tæp níutíu sóttu um starf sérfræðings á sviði framtíðarvinnumarkaðar

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Magnús Már Guðmundsson framkvæmdastjóri BSRB.
Magnús Már Guðmundsson framkvæmdastjóri BSRB. Vísir/Vilhelm

„Að því er ég best veit þegar kemur að hinum svokölluðu aðilum vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingunni og atvinnurekendum, er BSRB fyrst til að ráða sérstakan starfsmann til að sinna þessu verkefni,“ segir Magnús Már Guðmundsson framkvæmdastjóri BSRB um starf sérfræðings á sviði framtíðarvinnumarkaðar sem félagið auglýsti eftir á dögunum. 

Umsóknarfrestur rann út þann 23.ágúst síðastliðinn og sóttu hátt í 90 einstaklingar um starfið. Að sögn Magnúsar telur BSRB tímabært að láta slag standa í þessum efnum. Meðal annars hafi félagið horft til þess hvað systursamtök og verkalýðshreyfingin hefur verið að gera á Norðurlöndum. „Þar er víða farið að vinna með kerfisbundnum hætti að undirbúningi fyrir framtíðarvinnumarkaðinn,“ segir Magnús.

Magnús segir umræðuna innan BSRB hafa staðið í nokkurn tíma um mikilvægi þess að byggja undir sérfræðiþekkingu á málefnum framtíðarvinnumarkaðarins. Það sé ekki síst í ljósi þeirra breytinga sem munu fylgja á störfum í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar.

„Frekari greiningarvinna og stefnumörkun er eitt af stærstu verkefnum okkar á komandi árum meðal annars vegna þess að aukintæknivæðing mun óhjákvæmilega hafa í för með sér verulegar breytingar á störfum stórs hóps launafólks, þar á meðal fjölmargra af okkar félagsmönnum,“ segir Magnús en greining á fræðslumálum og framtíðarvinnumarkaði verður mikilvægur liður í verkefnum sérfræðingsins sem ætlunin er að ráða.

Magnús segir BSRB leggja áherslu á að tryggja þurfi starfsfólki endurmenntun og viðeigandi færni til að sinna breyttum störfum framtíðarinnar og eins þurfi að bjóða fólki annars konar menntun eða störf á sambærilegum vettvangi. Mikið muni breytast og undir þær breytingar þarf fólk að vera undirbúið. 

Breytingunum fylgja spennandi tækifæri fyrir samfélagið allt, en einnig stórar samfélagslegar og siðferðislegar spurningar sem mikilvægt er að heildarsamtök launafólks taki afstöðu til svo við fáum öll að njóta ávaxta framfara,“ 

segir Magnús.

Að sögn Magnúsar hefur verkalýðshreyfingin verið mjög virk í undirbúningi fyrir fyrirhugaðar breytingar, til dæmis í gegnum sí- og endurmenntunarstöðvar sem bandalagið eða aðildarfélögin 23 koma að. Þá kom fram í auglýsingu að meðal verkefna í starfi muni tiltekinn sérfræðingur sinna fræðslu, ráðgjöf og almenna upplýsingamiðlun um menntamál og að leitað væri að aðila sem hefði þekkingu eða reynslu af menntamálum, ekkert síður en á vinnumarkaði.

En gerir Magnús ráð fyrir að á næstu árum muni menntakerfið á Íslandi breytast?

„Menntakerfið á og þarf að þróast, taka mið af framþróun og breytingum og styðja þannig við allt samfélagið. Auk þess að fást við hefðbundinn verkefni verður kerfið og hvatar innan þess að stuðla að því að fólk sæki sér þá menntun og hæfni sem samfélagið þarf á að halda á komandi árum, sem og að gera fólki kleift að endurmennta sig fyrir framþróun í starfi eða fyrir ný störf,“ segir Magnús.

Þá segir hann einnig þurfa að horfa til annarra fyrirsjáanlegra breytinga, þar á meðal á það hvernig aldursamsetning þjóðarinnar er að breytast.

„Á sama tíma og það dregur úr náttúrlegri fólksfjölgun hækkar meðalaldur þjóðarinnar og því fylgja ýmiskonar úrlausnarefni,“ segir Magnús og bætir við 

Mikilvægi opinberra starfsmanna sem sinna til að mynda umönnun og kennslu mun aukast samhliða þessum breytingum og þá er eins gott að standa vel að málum.“

Magnús segir mikilvægt að hér á landi verði farið að vinna með kerfisbundnum hætti að undirbúningi framtíðarvinnumarkaði eins og á Norðurlöndunum. Ráðning í starf sérfræðings á þessu sviði sé framlag BSRB í þeim efnum. Um nýtt starf er að ræða og því muni það mótast og þróast eftir að viðkomandi hefur störf.

„Við tökum eðlilega tillit til aðstæðna hér á landi og innan okkar raða og mótum starfið samkvæmt því. Af því sögðu erum við mjög spennt að efla okkur á þessu sviði, vonum að sjálfsögðu að árangurinn verði góður og að fleiri geri slíkt hið sama,“ segir Magnús.

Alls eru félagsmenn BSRB um 22 þúsund talsins og þar af eru um tveir þriðju félagsmanna konur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×