Handbolti

Hákon Daði: Er með gæsahúð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hákon Daði skoraði fjögur mörk í bikarúrslitaleiknum.
Hákon Daði skoraði fjögur mörk í bikarúrslitaleiknum. vísir/daníel

Hákon Daði Styrmisson varð bikarmeistari í annað sinn með ÍBV þegar liðið vann Stjörnuna í úrslitaleik Coca Cola-bikars karla í dag, 26-24.

„Þetta er geggjað. Ég er með gæsahúð. Þetta var erfiður leikur og við spiluðum ekki nærri því okkar besta leik,“ sagði Hákon Daði við Vísi eftir leik.

„Þetta sýnir samt hvað það eru sterkir einstaklingar í liðinu. Allir geta skarað fram úr á réttum augnablikum,“ bætti hornamaðurinn við.

Stjarnan spilaði sterka vörn sem ÍBV átti í vandræðum með að leysa. En Eyjamenn skoruðu níu mörk eftir hraðaupphlaup sem reyndust afar dýrmæt.

„Þegar önnur lið þora ekki að keyra og láta vaða er pungur í okkur. Sem betur fer gekk það núna. Við vorum í bölvuðu basli með vörnina þeirra og þeir eiga hrós skilið. Vörnin okkar var líka sterk og hraðaupphlaupin gerðu gæfumuninn,“ sagði Hákon Daði.

Eins og áður sagði varð hann bikarmeistari með ÍBV fyrir fimm árum. En hver er munurinn á þessum tveimur titlum?

„Ég tók meiri þátt í þessu. Ég var svolítill farþegi 2015 og maður ber meiri ábyrgð núna,“ sagði Hákon Daði að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×