Körfubolti

Logi: Unnum þennan leik fyrir Einar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Njarðvíkingar gerðu góða ferð til Akureyrar í kvöld.
Njarðvíkingar gerðu góða ferð til Akureyrar í kvöld. Vísir/Bára

„Við ætluðum að gera þetta fyrir Einar (Árna Jóhannsson). Hann er þannig þjálfari að honum hefur fundist rosalega erfitt að vera ekki með okkur hérna í kvöld. Hann er all-in í þessari þjálfun. Hann er núna á fæðingadeildinni að bíða eftir barni. Ég veit ekki hvort það sé komið. Við erum rosalega sáttir að ná að vinna þennan leik fyrir Einar,“ sagði Logi Gunnarsson, fyrirliði og besti maður Njarðvíkinga í þriggja stiga sigri liðsins á Þór Akureyri í Dominos deild karla í körfubolta í kvöld.

Logi fór fyrir sínu liði innan vallar og þurfti eflaust að láta mikið til sín taka utan vallar einnig í fjarveru Einars Árna. Hann var að vonum sigurreifur í leikslok.

Ánægður að koma hingað og vinna. Ég var búinn að skoða þessa heimaleiki hjá Þórsurunum á móti Haukum, KR og fleiri liðum sem voru að liggja hérna. Við vissum að þetta yrði hörkuleikur og ég er bara sáttur að komast héðan með sigur,“ segir Logi.

Njarðvíkingar sitja nú í 4.sæti deildarinnar en ekki verður meira spilað í deildinni í febrúarmánuði.

„Það er gott að fara inn í hléið með svona sigur og að vera í fjórða sætinu.“

Njarðvíkingar sýndu mikinn karakter að koma til baka og vinna leikinn eftir að hafa verið að elta fallbaráttulið Þórsara stærstan hluta leiksins.

„Mér fannst þeir gera vel í að spila á sínum styrkleikum og mér fannst við vera of linir, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeir gerðu vel en við gerðum nóg í endann og það sýnir styrk þó við hefðum viljað spila betur, segir Logi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×